Sami ættleggurinn með umboð Brunabótafélagsins / VÍS í 82 ár

0
1038

Screen Shot 2016-01-23 at 01.54.53Allt frá árinu 1932 til dagsins í dag eða í 82 ár hefur sami ættliðurinn verið með umboðið fyrir Brunabótafélag Íslands ,sem síðar varð Vátryggingarfélag Íslands, í Dölum.

Á árabilinu 1932 til 1954 var Jóhannes Benediktsson (f.31.10.1884 – d.03.03.1954) bóndi á Saurum í Laxárdal með umboðið fyrir Brunabótafélagið eða allt til dauðadags. Þá tók við umboðinu sonur Jóhannesar, Benedikt Jóhannesson (f.04.01.1914 – d.25.10.1983), Benedikt eða Benni á Saurum eins og flestir þekktu hann var með umboðið frá árinu 1954 til ársins 1983 er hann lést.

Þá tók við umboðinu dóttir Benedikts, Melkorka Benediktsdóttir á Vígholtsstöðum í Laxárdal. Melkorka sinnti fyrst um sinn umboðsstörfum frá heimili sínu en þegar ráðist var í byggingu stjórnsýsluhússins í Búðardal tók Brunabótafélag Íslands þátt í byggingunni og átti hlut í henni.

Þann 26.febrúar 1988 var Stjórnsýsluhúsið vígt og flutti Melkorka skrifstofu sína þangað og var þar til ársins 2006 þegar hún flutti sig yfir í húsnæði Arionbanka í Búðardal.

Melkorka Benediktsdóttir á skrifstofu sinni á 2.hæð í Arionbanka Búðardal

Nú ber svo við að umboðssamningur Melkorku við VÍS rennur út um næstu áramót og sökum þess hefur hún hætt störfum á skrifstofu sinni í áðurnefndu húsnæði, en síðasti vinnudagur hennar þar var 28.nóvember síðastliðinn.

Að sögn Melkorku mun hún sinna störfum sínum fyrir VÍS frá heimili sínu að minnsta kosti til áramóta hvað sem svo sem síðar kann að verða.

Viðskiptavinir munu geta haft samband í sama símanúmer sem verið hefur á umboðsskrifstofunni 434 1415 og einnig notað tölvupóstfangið melkorka@vis.is

Ljóst er að þessi nánu ættmenni, þau Jóhannes, Benedikt og Melkorka hafa um langan aldur sinnt mikilvægu starfi af kostgæfni og alúð og sannarlega notið trausts í héraði og örugglega meðal eigenda fyrirtækisins.

Ummæli við þessa frétt
Ummæli við þessa frétt

Það er ævinlega áhyggjuefni þegar fyrirvaralítið eru boðaðar grundvallarbreytingar á rótgróinni starfsemi í fámennu samfélagi. Vonandi sér VÍS sér fært að viðhalda starfseminni áfram þótt fyrirkomulag breytist að einhverju leyti. Hvert starf er mikils virði og það, sem hér um ræðir, er nú sem fyrr í góðum höndum.