Þrjár kindur fundust í Skeggjadal í Dölum í dag

0
1059

Screen Shot 2016-01-23 at 01.50.30Þrjár kindur fundust inni í Skeggjadal í Hvammssveit í Dölum í dag. Það var Halldór bóndi í Rauðbarðaholti í Hvammssveit sem fann kindurnar.

Í samtali við Halldór sagðist hann hafa farið inn Skeggjadal í þeim tilgangi að athuga hvort hann sæi nokkrar eftirlegukindur og eftir atvikum koma þeim í hús fyrir harðasta veturinn.

Halldór segist þá hafa séð umrædda kind ásamt lömbunum tveimur. Hann hafi getað nálgast þær það mikið að hann hafi séð að kindurnar tilheyrðu Hólum í Hvammssveit.

Screen Shot 2016-01-23 at 01.50.51Halldór sagðist ekki hafa getað komið kindunum sjálfur til byggða sökum ófærðar og sökum þess hversu klakabrynjaðar kindurnar voru, og því hafi hann haft samband við Hjalta í Hólum og látið hann vita hvar kindurnar væru.

Úr varð að nágrannarnir Hjalti Kristjánsson bóndi í Hólum og Jón Egill Jóhannsson bóndi á Skerðingsstöðum í Hvammssveit fóru á vélsleðum til þess að sækja kindurnar.

Screen Shot 2016-01-23 at 01.51.04Um var að ræða tvílembu í eigu Hjalta bónda í Hólum en kindin og lömb hennar voru komin lengst inn í Skeggjadal sem fyrr segir, nánast upp undir Skeggöxl sem er 815m á hæð.

Kindurnar voru nokkuð vel á sig komnar en þó nokkuð þungar af klaka og snjó enda búnar að vera úti í hríðarveðrinu undanfarið.

Screen Shot 2016-01-23 at 01.51.13Meðfylgjandi ljósmyndir tóku þau Jón Egill og Bjargey, bændur á Skerðingsstöðum.