Þú þarft að mæta í fjósið í fyrramálið

0
2473

ingi-626x350Að þessu sinni heimsækjum við Inga Einar Sigurðsson sem er borinn og barnfæddur Dalamaður frá Vogi á Fellsströnd. Ingi Einar er faðir þriggja drengja sem hann á með Lilju Björk Birkisdóttur.

Síðustu 12 árin hefur Ingi starfað hjá fyrirtækinu Nóa Síríus þar sem hann er sölustjóri.

Hér að neðan má lesa stutta frásögn þar sem Ingi fer yfir lífshlaup sitt í fáum orðum en einnig má finna hér viðtal sem Þorgeir Ástvaldsson tók við hann en þar rifjar Ingi einnig upp fortíðina ásamt því sem hann talar um það sem hann er að fást við í dag.

Þú þarft að mæta í fjósið í fyrramálið,

Sveitin mótaði hann og undirbjó fyrir lífið,- en hann og systkini hans þurftu að fullorðnast hratt.

Frásögn Inga:

Við bjuggum í Vogi á Fellsströnd alla mina barnæsku með föður mínum, Sigurði Pétri Guðjónssyni og móður minni Lilju Sigfúsdóttur og systkinum mínum fjórum. Ég á ekkert annað en góðar minningar af minni barnæsku þar til móðir mín lést úr krabbameini eftir erfið veikindi. Andlát hennar og veikindi höfðu mikil áhrif á mína fjölskyldu og það var ekki fyrr en ég sjálfur varð faðir að ég áttaði mig á því hversu erfitt þetta var fyrir okkur systkinin og fyrir föður minn og hversu miklu hann þurfti að fórna til að ala okkur börnin fimm upp.

Þetta hafði mikil áhrif á okkur öll og ég veit að við náðum aldrei að vinna okkur almennilega úr andláti hennar. Við þurftum öll að standa saman og fullorðnast hratt. En ég er ævinlega þakklátur fyrir þann tíma sem ég hafði með móður minni og öllu sem faðir okkar gerði fyrir okkur eftir þetta allt saman. Þetta gat ekki verið létt fyrir hann með okkur öll börnin og stórt kúabú á sínum herðum.

Ég var í skóla á Laugum í Sælingsdal og hafði mjög gaman af þeim tíma, en sérstaklega 8. 9. og 10.bekk. Ég var duglegur að stunda félagslífið við skólann og hafði gaman af því að stunda íþróttir eins og fótbolta og sund.

Ég var hrifinn af því að búa fyrir vestan, ég elska náttúruna, kyrrðina og einfaldleikann. Sumartíminn var auðvitað í uppáhaldi, heyskapurinn og fallegu vor og sumarkvöldin. Það er verst að ég get ekki boðið strákunum mínum uppá þetta. Það er bara svo hollt fyrir börn að kynnast sveitinni, dýrunum og frelsinu að geta verið úti í náttúrunni.

Það sem maður lærði af því að alalst upp í sveit var að vinna og vinna vel. Faðir minn, Pétur Guðjónsson kenndi okkur börnunum það að taka ábyrgð og að maður væri sinn eigin gæfusmiður. Sveitin mótar fólk og fólk þarf að læra að vinna rétt og notast við öguð vinnubrögð. Maður þarf að vera agaður til að ná árangri og að geta gert sér markmið og fylgt þeim eftir. Ég hef alla tíð unnið allar mínar vinnur og nám eftir vissum markmiðum og passað mig á því að vinna við það sem hentar mér og mér finnst bæði skemmtilegt og krefjandi.

Það var alltaf viss stemming að keyra vestur eftir veturinn og finna dalaloftið í lungunum á ný. Fellsströndin hefur alltaf átt vissan part í hjarta mínu og maður fyllist stolti að geta sagt að máður sé fæddur Dalamaður.

Árið 1993 eftir áramótin flutti ég suður og stundaði nám við Fjölbrautaskólann í Ármúla á félagsfræðibraut. Eftir það vann ég við ýmis störf tengdum bæði þjónustugeiranum og matvörumarkaðnum. Meðal annars sem sölumaður hjá Juventus við sölu á heimasíðum áður en þetta Internet fór á flug. Það var ekkert agalega létt að selja fyrirtækjum það að kaupa heimasíðu fyrir milljón á þeim tíma. Síðan vann ég til dæmis hjá Helga í Góu sem sölumaður.

Ég kynnist svo konunni minni, henna Lilju Björk Birkisdóttur árið 2000 og fluttum við til Svíþjóðar árið 2001. Þar var ég í námi og Lilja var að vinna við ýmis störf. Við fluttum til baka árið 2003 og þá byrjaði ég að vinna í Nóa Síríus sem sölumaður.

Við Lilja erum búin að búa í Grafarvogi frá árinu 2003. Við eigum saman þrjá stráka, Mikael Andra 13 ára, Jakob Bjarna 9 ára og Davíð Smára 5 ára. Ég er gríðarlega stoltur og þakklátur fyrir þessa stráka. Þetta eru góðir strákar sem vilja öllum vel.

Ég er einnig stoltur af því að vinna í Nóa Síríus og hefur fyrirtækið breyst mikið frá því að ég byrjaði og bara til hins betra. Ég hef fengið að þróast í starfi hjá fyrirtækinu og tekið þátt í því að bæta fyrirtækið. Ég vinn í dag sem sölustjóri stórmarkaða og held utan um þá viðskiptavini  og sölumennina á því sviði.

Nói Síríus er samheldið fyriritæki sem hefur alltaf gert vel fyrir sína starfsmenn og er mikið hópefli í vinnunni. Alltaf eitthvað að gerast í vinnunni og allir vilja taka þátt í því. Ég hef mikinn áhuga á því að vera partur af Nóa og þeirri framtíðarsýn sem Nói hefur sett sér. Það gefur manni mikið að vita til þess að maður sé að bjóða neytendum uppá munaðarvöru sem yljar fólki um hjartað. Vörur eins og Nóa konfektið, Nóa páskaeggin, Nizza, Opal og Pipp eru vörur sem Íslendingar vilja á sitt borð. Allir landsmenn þekkja Nóa Síríus.

Ég ákvað því að hefja nám í viðskpitafræði í Háskólanum í Reykjavík haustið 2009 samhliða vinnu og tel það vera eina af mínum betri ákvörðunum í mínu lífi og er ég mjög þakklátur mínum yfirmönnum að hafa gefið mér tækifæri á því að stunda nám með vinnunni. Gríðarlega skemmtilegt og krefjandi nám, þar sem maður kynnist mörgu snjöllu fólki og maður fer að hugsa út fyrir kassann á ný. Ég hvet alla til að fylgja sínum draumum , koma sér út úr þægindahringnum og taka skrefið. Það einungis bætir mann og opnar fyrir manni hurðir sem maður vissi ekki af áður.