Þak fauk af útihúsum í Magnússkógum II

0
1721

Kári blés kröftuglega í Dölum í dag líkt og á landinu öllu. Vindhviður fóru upp í 36,5 metra á sekúndu í hádeginu á Laxárdalsheiði og á Svínadal fóru vindhviðurnar upp í 35 metra á sekúndu.

Á bænum Magnússkógum II í Hvammssveit í Dölum varð eitthvað undan að láta og fauk hluti fjárhúsþaksins af í veðurofsanum.

Á Magnússkógum II eru ábúendur þau Guðbjörn Guðmundsson og Jóhanna Jóhannsdóttir en á Facebook síðu þeirra nú í kvöld birtu þau meðfylgjandi ljósmyndir af skemmdunum á fjárhúsunum þar sem kom fram að veðurhamurinn hafi reynst útihúsum þeirra of mikill.

Fáar kindur eru á Magnússkógum II og náðist að koma þeim kindum sem voru í húsunum þegar þakið fauk af í annan hluta útihúsanna að sögn Guðbjörns og Jóhönnu.

Ekki er vitað um frekara tjón í Dölum vegna veðurofsans í dag.