Ástvaldur Magnússon

0
2365
Ástvaldur Magnússon var einn af stofnendum Leikbræðra

Ástvaldur Magnússon var annar tenór. Ástvaldur var einn stofnenda Leikbræðra.

Minningargreinar um Ástvald Magnússon

Ástvaldur Magnússon fæddist á Fremri-Brekku í Saurbæjarhreppi í Dalasýslu 29. júní 1921. Hann andaðist á Landspítalanum í Fossvogi aðfaranótt fimmtudagsins 27. mars síðastliðins og var útför hans gerð frá Langholtskirkju 7. apríl.

Góður vinur er horfinn yfir móðuna miklu. Með nokkrum orðum langar mig að minnast Ástvaldar Magnússonar, svila míns. Honum kynntist ég fyrir rúmum 50 árum er ég tengdist fjölskyldunni á Breiðabólstað á Fellsströnd. Vinátta okkar hjóna og Ástvaldar og Nennýjar konu hans var ætíð einlæg og trygg. Þau hjónin áttu oft leið vestur í Dali og dvöldu þar sumarlangt í sumarbústaðnum í Brekku. Oft litu þau inn á leið sinni þangað og voru þau ætíð aufúsugestir.

Valdi var alltaf kátur og spaugsamur. Hann gerði að gamni sínu við börnin og átti auðvelt með að sjá spaugilegar hliðar á ýmsum hliðum tilverunnar. Mér er minnisstæð ein af fyrstu ferðum mínum vestur í Dali. Við urðum þá samferða þeim Nenný og Valda vestur, á leið í afmæli tengdaföður míns. Farkosturinn var Landroverjeppi, ekkert sérlega þægilegt farartæki, en glatt var á hjalla í bílnum alla leiðina, sungið, látið fjúka í kviðlingum og sagðar gamansögur og hermt eftir af mikilli list, svo að ferðin varð öll hin skemmtilegasta. Þar komst ég að því hve auðvelt Valdi átti með að setja saman vísur og segja skemmtilega frá. Nokkrar vísurnar man ég enn. Tónlistin var ríkur þáttur í lífi Valda og fjölskyldunnar allrar. Hann hafði sjálfur mjög fallega söngrödd. Hann söng í hinum vinsæla kvartetti Leikbræðrum, Breiðfirðingakórnum og Karlakór Reykjavíkur, en söngferil hans að öðru leyti þekkja aðrir betur og geta eflaust rakið betur en hér er gert. Það mátti heita fastur liður að hann tæki lagið með Magnúsi syni sínum á tyllidögum stórfjölskyldunnar frá Breiðabólstað. Tónlistin hefur einnig fylgt börnum hans og barnabörnum gegnum árin. Valdi var mjög hagur og vandvirkur og átti mörg handtökin í þeim íbúðum sem fjölskyldan bjó í gegnum tíðina. Eins gerði hann upp gamla muni og húsgögn af miklum hagleik svo þau urðu eins og ný. Mér er efst í huga okkar persónulegu kynni. Við hjónin og fjölskyldan áttum ótal stundir með þeim Valda og Nenný og nutum gestrisni þeirra og hlýju.

Við hjónin viljum þakka Valda trygga og einlæga vináttu í meira en hálfa öld og sendum börnum hans og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Við þökkum Valda samfylgdina og ég veit að hann hverfur nú inn í vorið sem vaknar í Dölum og vornóttin geymir í dögginni tveggja gengin spor. Blessuð sé minning Ástvaldar Magnússonar.

Þrúður Kristjánsdóttir.

Kær frændi og vinur hefur kvatt. Allt frá því að við fyrst munum eftir okkur hefur Valdi föðurbróðir okkar verið í námunda við okkur með sína hlýju og glaðlegu nærveru. Valdi hafði gott minni og sagði einstaklega skemmtilega og lýsandi frá. Það er okkur ógleymanlegt þegar við fórum með honum vestur í Fremri-Brekku í Saurbæ á áttræðisafmæli hans og hann rifjaði upp atburði sem gerðust endur fyrir löngu á uppvaxtarárum þeirra bræðra. Þarna naut frásagnargáfa Valda sín sem aldrei fyrr, hann þekkti hverja þúfu og hvern stein og rifjaði upp sögur af fólki og atburðum sem gerðust áratugum fyrr. Og þar var af nógu að taka. Bræðurnir í Brekku voru hugmyndaríkir og miklir hagleiksmenn. Vafalaust hafa aðstæður á afskekktu sveitaheimili ekki leyft að hægt væri að fá allt sem hugurinn girntist. En þá var bara að skapa það sjálfur úr því efni sem bauðst. Það vafðist ekki fyrir þeim bræðrum að smíða reiðhjól úr gjörðum og öðru því sem við höndina var. Eða að grafa fyrir sundlaug í túnjaðrinum og bjóða sveitungum til leiks.

Valdi var listasmiður og afar vandvirkur. Honum var það líka mikið ánægjuefni að miðla af þeirri þekkingu sinni til okkar sem vorum skemmra á veg komin í iðninni. En það gat verið taugatrekkjandi þegar Valdi strauk fingrinum eftir fjölinni að loknu verki. Það voru ekki viðhöfð mörg orð, en einhvern veginn alveg ljóst hvernig hafði tekist til. Vandvirkni hans lýsti sér í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Og fallegri rithönd höfum við ekki séð, nema ef þeir bræður kunni að hafa verið jafnokar á því sviði.

Frændi okkar var ættfróður og kunni margar sögur af áum okkar langt fram í ættir. En ekki síður lét hann sér annt um samferðamenn sína og velferð þeirra og fylgdist vel með. Aldrei hitti hann okkur öðru vísi en að grennslast fyrir um hvernig okkur vegnaði. Og þegar yngsta systir okkar varð einhvern veginn útundan í fjölskylduboði þá tók Valdi til sinna ráða og lék sér við hana.

Og svo er það söngurinn, sem var stór þáttur í lífi Valda, allt til hinstu stundar. Aldrei var haldin fjölskylduveisla öðru vísi en að þar væri spilað og sungið. Þar skein vandvirknin í gegn eins og í öllu öðru í lífi hans. Þegar við frændurnir í fjölskyldubandinu, sem við kölluðum Breiðagerðisbandið, tókum fullhressilega á því var Valdi fljótur að kippa í taumana. „Ekki svona sterkt strákar. Syngjum mjúkt og músíkalskt – og skýran textaframburð.“ Valdi var í kvartettinum Leikbræðrum sem naut mikilla vinsælda meðan hann starfaði. Æ síðan var hann mikill áhugamaður um kvartettsöng og studdi og hvatti menn til dáða á þeim vettvangi með margvíslegum hætti.

Það er ómetanlegt að hafa notið frændsemi og vináttu Valda öll þessi ár. Minningarnar um hann og hans ástkæru Nenný, sem lést fyrir rúmu ári, eru okkur dýrmætar perlur. Við biðjum algóðan guð að styðja börn hans og fjölskyldur þeirra.

Halldór, Ragnheiður, Lára,

Ásthildur Gyða og Erna, börn Torfa og Ernu, og fjölskyldur þeirra.

Við hjónin kynntumst Ástvaldi Magnússyni fyrst þegar við vorum á unga aldri, eða fyrir rúmum sextíu árum. Við nýkomin austan úr Rangárvallasýslu til Reykjavíkur og byrjuð að búa þar, Ástvaldur og Guðbjörg Helga úr Dalasýslu. Við vorum nágrannar fyrstu búskaparárin og með okkur tókst vinátta sem aldrei hefur borið skugga á. Árið 1956 sóttum við saman um byggingarlóð undir tvíbýlishús í heimunum og fengum úthlutað lóð í Álfheimum 19. Ástvaldur útvegaði arkitekt og byggingameistara en við múrarameistara. Við fengum leyfi hjá meisturunum til þess að vinna við bygginguna allt það sem við gætum leyst vel af hendi. Ástvaldur var fæddur smiður og tók hann að sér að reisa húsið frá grunni og smíða alla glugga í það. Við meðeigendur gerðum allt sem við gátum undir öruggri stjórn Ástvaldar. Eftir rúmt ár fluttum við í húsið.

Aldrei féll styggðaryrði frá íbúum á neðri hæðinni en fallegur tenór húsbóndans með píanóleik frúarinnar barst gjarnan upp þegar færi gafst frá mikilli vinnu. Sumir lýsa upp æviveginn. Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við vorum þeim samtíða í Álfheimum og áfram höfðum við samband, sama gleðin alltaf þegar við hittumst. Okkur er í fersku minni þegar Ástvaldur bauð okkur á konsert Karlakórs Reykjavíkur sem haldinn var í Ými. Áður en tónleikarnir byrjuðu sótti hann okkur og heima hjá þeim beið okkar veisla og spjall. Síðan fórum við saman í Ými. Þar söng Ástvaldur tenór með karlakórnum, sem söng af sinni alkunnu list. Í hléinu var Nenný heiðruð fyrir aðstoð við kórinn, hún var þar undirleikari og einnig með Leikbræðrum, alltaf þegar með þurfti. Eftir konsert gekk Ástvaldur hægum skrefum að bíl sínum og ók okkur heim með miklum glæsibrag. Þau héldu svo áfram heim til sín, hann við stýrið en Nenný með fullt fangið af blómum í framsætinu. Þetta var síðasta skipti sem við vorum fjögur saman.

Við þökkum þeim og börnum þeirra allar björtu minningarnar og vottum afkomendunum okkar dýpstu samúð.

Ingibjörg og Ingólfur.

Þeir tínast í burtu einn og einn „strákarnir okkar“ sem luku prófi í Samvinnuskólanum við Selvogsgötu árið 1944. Við vorum 36 talsins, „strákar og stelpur“. Það var glaður og samheldinn hópur. Af sjáanlegum ástæðum er hann ekki lengur svipur hjá sjón. Nú kveðjum við einn þeirra, félaga okkar Ástvald Magnússon. Að honum er mikil eftirsjá. Útgeislun hans og hlýja var sérstök. Hann var mjög háttvís og heldur til hlés í framkomu, en fyllti þó stórt rými þar sem hann var. Því verður skarðið stærra sem myndast við brotthvarf hans í okkar hópi, sem hefur staðfastlega hist á fimm ára fresti í rúm 60 ár og reyndar oftar nú á seinni árum.

Í þessum bekkjarteitum hefur Ástvaldur verið ómissandi. Hann sá um sönginn, stjórnaði honum af festu og fjöri. Oftast lagði konan hans okkur lið, tónlistin var þeim sameiginleg ástríða. Hún spilaði undir á píanó og taldi ekki eftir sér að spila svo lengi sem við vildum syngja. Og var það stundum ansi lengi. Hún hét Guðbjörg Helga Þórðardóttir en hún lést 22.2. 2007. Eftir þann missi varð Ástvaldur aldrei samur.

Þegar ég hugsa til hans fylgir alltaf tónlist og söngur. Hann var ungur maður þegar hann stofnaði söngkvartettinn Leikbræður ásamt fleirum. Þeir urðu strax afar vinsælir og landskunnir. Í Karlakór Reykjavíkur starfaði hann og söng áratugum saman.

Ég tel víst að samstarfsmenn og söngfélagar í gegnum árin muni minnast hans og rekja störf hans og lífshlaup, það læt ég þeim eftir.

Ég veit að ég tala máli okkar allra skólafélaga Ástvalds, sem höfum átt samleið með honum frá því að við öll vorum ung og stöndum nú eftir og kveðjum þegar hann leggur í ferðina miklu. Við þökkum honum vináttu, tryggð og ljúfan söng sem við nutum með honum. Við biðjum honum fararheilla. Ég fullyrði að þær ferðabænir eru ósviknar. Börnum Ástvalds og öðrum aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Auður Thoroddsen.

Kveðja frá Karlakór Reykjavíkur

Enn á ný er höggvið skarð í þann stóra hóp manna sem komið hafa að starfi Karlakórs Reykjavíkur.

Ástvaldur Magnússon, mikils metinn félagi, er fallinn frá á 87. aldursári. Hann gekk til liðs við kórinn árið 1964 og starfaði með honum um áratugaskeið, uns hann flutti sig yfir í kór eldri félaga. Með þeim söng hann þar til hann dró sig í hlé á síðasta ári.

Hann söng 2. tenór og minnast félagar hans þess hve músíkalskur hann var og öruggur. Sönggleði hans fékk líka útrás í söngkvartettinum Leikbræðrum, sem hann skipaði ásamt Torfa bróður sínum sem söng 1. bassa, Friðjóni Þórðarsyni mági sínum 2. bassa og Gunnari Einarssyni 1. tenór. Þessir menn sungu líka í Karlakór Reykjavíkur um árabil. Leikbræður nutu mikilla vinsælda á sínum tíma og enn má heyra upptökur af söng þeirra á öldum ljósvakans.

Ástvaldur tók virkan þátt í félagsstarfi Karlakórs Reykjavíkur. Hann gegndi embætti formanns frá árinu 1976 til 1980 en á þeim tíma ferðaðist kórinn til Kína, sem er lengsta ferð í sögu hans. Þá vann hann ötullega að húsbyggingarmálum kórsins. Árið 1980 var hann gerður að heiðursfélaga í Karlakór Reykjavíkur.

Fleira var Ástvaldi til lista lagt. Hann var hagmæltur og féllu af vörum hans fjölmargar tækifærisvísur við hin ýmsu tækifæri í starfi kórsins. Hann var einnig listaskrifari og var hann oft fenginn til að skrautskrifa kveðjur með gjöfum sem félögum voru færðar á stórafmælum. Það þótti því vel til fundið þegar eldri félagar færðu Karlakór Reykjavíkur forkunnarfagran félagsfána að gjöf í tilefni af 80 ára afmælis kórsins árið 2006, að Ástvaldur skrautritaði kveðju í kortið sem fylgdi, kveðju sem hann hafði ort. Sú kveðja bar vott um skýran hug og styrka hönd þrátt fyrir að háum aldri væri náð. Fyrir þessa kveðju þakka félagar í Karlakór Reykjavíkur enn og aftur og ekki síst fyrir samfylgd í rúma fjóra áratugi. Um leið sendum við fjölskyldu Ástvaldar Magnússonar hugheilar samúðarkveðjur.

F.h. Karlakórs Reykjavíkur,

Vigfús M. Vigfússon formaður.

Er við Capri að ægi sígur hin gullna sól.

Þannig orti Friðjón Þórðarson sýslumaður, mágur Ástvaldar, og þeir félagar í Leikbræðrum sungu. Þjóðin lærði á augabragði þau fallegu lög sem Leikbræður fluttu vítt og breitt um landið, voru hljóðrituð og mikið leikin í útvarpi landsmanna á mínum ungdómsárum. En Ástvaldi og félögum var margt fleira til lista lagt en syngja, þótt tónlist og söngur hafi áreiðanlega verið mestur gleðigjafi í lífi þeirra félaga og fjölskyldna þeirra, en þar eru óvenjulega hæfileikaríkir tónlistarmenn á hverju strái.

Ég kynntist Ástvaldi fyrst á þann veg að góðvinur hans og félagi, Sigurður Baldursson hrl., sagði við mig einn góðan veðurdag í rúblunni á Laugavegi 18, þar sem við störfuðum báðir: „Baldur, eigum við ekki að brjótast til valda.“ Sú gjörð var í því fólgin að fara suður í Hafnarfjörð þar sem Ástvaldur starfaði sem útibússtjóri Iðnaðarbankans. Ég hreifst strax mjög af þessum fjölhæfa og gáfaða manni og þar hófust þau nánu og innilegu kynni sem hafa staðið allt til síðasta dags. Ástvaldur var um þær mundir formaður Karlakórs Reykjavíkur og kom heim til mín eina bjarta nótt um vor og með honum í för voru Sigurður Baldursson og Páll P. Pálsson, tónskáld og stjórnandi Karlakórsins. Undir morgun var handsalað að frá og með þeim degi kæmi ég til liðs við kórinn.

Ástvaldur var lífið og sálin í starfi kórsins. Hann var hrókur alls fagnaðar á æfingum og ferðalögum, ágætlega hagmæltur og sífellt að kasta fram stöku. Enn treystust vináttuböndin þegar við gengum báðir til liðs við kór eldri félaga. Minnisstæðust eru mér hin mörgu söngferðalög okkar vestur í Dali, bæði á Jörfagleði og við önnur tækifæri. Þá fóru þeir á kostum feðgarnir Ástvaldur og Magnús. Strax og komið var í Hvalfjörð tók Friðjón sýslumaður við fararstjórn. Lýsingar hans og sögur af náttúru, mannlífi, jafnt frumlegum mönnum og fyrirmönnum, lifnaðarháttum og pólitískri baráttu eru öllum sem nutu ógleymanlegar. Og jafnljúfur maður og Friðjón er lét sig ekki muna um að endurtaka sögustundirnar í hvert sinn sem við fórum vestur. Síðasta söngferð okkar eldri félaga var tileinkuð Leikbræðrum og við sungum syrpu af lögum þeirra í Búðardal. Þar voru þeir Ástvaldur og Friðjón ákaft hylltir.

Ástvaldur var mjög heillandi maður. Hann var hinn mesti kátínu- og gleðimaður og hver stund með honum var lifandi og skemmtileg. Allt lék í höndum Ástvaldar. Það var gaman að sjá hann ganga til verks þegar hann innréttaði skrifstofu sína á Klapparstíg, en þar var ég um skeið daglegur gestur. Það er mikil gæfa að hafa verið samtímamaður og vinur jafn mikilhæfs manns.

En nú er hin gullna sól hnigin til viðar. En það er huggun harmi gegn að sólin mun aftur rísa úr sæ og af geislum hennar stafa mikil birta.

Baldur Óskarsson.

Við hittumst fyrst í Karlakór Reykjavíkur árið 1969. Hann söng þá 1. bassa, en kynni okkar urðu fyrst náin í Eldri félögum upp úr 1994 en þar stóðum við jafnan hlið við hlið í 2. tenór. Ástvaldur var mjög góður kórmaður og jafnframt ósérhlífinn félagsmálamaður sem vann ötullega að málefnum beggja kóranna.

Við hjónin hittum Guðbjörgu og Ástvald oft á samkomum kóranna. Þau minntust þá gjarnan á heimahagana vestur í Dölum og hvöttu okkur til að líta við í Brekku, sumarbústað sínum á Breiðabólstað. Það gerðum við í ágúst 1997 og áttum með þeim ógleymanlegan dag í ferð fyrir Klofning þar sem þau fræddu okkur um byggðina, eyjarnar og sögufræga staði. Í þessari ferð urðum við hjónin margs vísari um það fagra og menningarlega umhverfi sem Ástvaldur var sprottinn úr. Nálægðin við skáldin Stefán frá Hvítadal og Jón frá Ljárskógum hlaut að hafa sín áhrif, enda urðu lög við ljóð þeirra síðar meðal viðfangsefna kvartettsins Leikbræðra. – Í viðtali við Ástvald í Tímariti MM (1. hefti 2008) segir hann m.a. frá Stefáni sem á fullorðinsárum hokraði með konu sinni og 10 börnum í Bessatungu í Saurbæ, næsta bæ við Fremri-Brekku, fæðingarbæ Ástvaldar; einnig frá Steini Steinari sem á unglingsárum sínum var um tíma vinnumaður á Fremri-Brekku. – Eftir lestur þessarar frásagnar má gera því skóna að dálæti föðurömmunnar á kveðskap Stefáns hafi m.a. átt sinn þátt í því að kveikja áhuga Ástvaldar á ljóðum, söng og yrkingum. Honum veittist einkar létt að setja saman vísur. Hann var líka listaskrifari og leituðu kórarnir gjarnan til hans þegar skrautrita þurfti gjafakort vegna ýmissa tækifæra. Og allt sem tengdist trésmíði lék í hendi hans.

Margir munu minnast Ástvaldar sem eins af félögunum í kvartettinum Leikbræðrum sem stofnaður var 1945 „fyrir hálfgerða tilviljun“ eins og mágur hans Friðjón Þórðarson orðaði það einhvern tíma við undirritaðan. Þessi „tilviljun“ átti sér stað í júní þetta ár í ferð Breiðfirðingakórsins frá Stykkishólmi til Reykjavíkur.

Ekið var um Kerlingarskarð og áð þar við lágan ás. Þar stungu fjórmenningarnir sér út úr hópnum, gengu norður með ásnum og námu staðar í kjarri vaxinni brekku sem þeir nefndu síðar Fögrubrekku. Þar sungu þeir saman Erla góða Erla og Ég vil elska mitt land. Þetta var upphafið á 10 ára nánu og farsælu samstarfi þeirra félaga. – Frásögn Ástvaldar um þetta birtist í tímaritinu Breiðfirðingi (39.-40. ár, 1982) og var rifjuð upp er Eldri félagar sungu nokkur Leikbræðralög á Jörvagleði í Búðardal vorið 2005 í tilefni af 60 ára afmæli kvartettsins. – „Leikbræðraplatan“ kom út 1977 og eru lögin nú til á geisladiski. Ástvaldur átti stærstan þátt í að safna saman þeim lögum sem þeir félagarnir sungu og búa undir prentun heftið „Söngbræðralög – 40 sönglög“. Það kom út haustið 1990 og hefur nú verið endurútgefið. Meðal síðustu verka Ástvaldar var að skrifa sögu Leikbræðra og bíður það verk prentunar.

Við hjónin geymum minningu um góðan dreng og sendum fjölskyldunni og öllu venslafólki samúðarkveðjur.

Gunnar Guttormsson.

„Þú verður að sjá rafstöðina,“ var eitt það fyrsta sem Ástvaldur sagði við mig, þegar ég kom síðla kvölds að Brekku, sumarbústað þeirra Guðbjargar Helgu og Ástvaldar á Breiðabólstað á Fellsströnd í Dölum. Þarna höfðu hinar högu hendur Valda fangað bæjarlækinn, sem veitti nú birtu og yl í bæinn.

Kvöldstundin og gistingin hjá þeim hjónum síðla sumars fyrir nokkrum árum hefur breyst í einstaklega bjarta og notalega minningu. Og í hlýlegri stofunni sagði Guðbjörg mér frá stráknum úr Saurbænum, sem hún var að skjóta sér í, en fékk ekki fararleyfi af Fellsströndinni til að hitta á einhverri samkomu unga fólksins í Dölunum. Þá rifjaðist upp fyrir mér, þegar Ástvaldur fór í míkrafóninn í rútunni eftir vel heppnað kvöld á Góugleði í Búðardal og sagði sögur úr Dölum, m.a. þegar hann sýndi sínar bestu hliðar í íþróttum á héraðsmóti Dalamanna og Guðbjörg var í áhorfendahópnum. Kannski eru það vængir söngsins sem gera þetta allt svo rómantískt í minningunni?

Svo eru það Leikbræðurnir. Árið sem bassinn silkimjúki frá Ljárskógum kvaddi sigldu fjórir ungir menn um spegilsléttan Breiðafjörðinn á Jónsmessunni og það var spilað og sungið, enda Breiðfirðingakórinn með í ferð. Á heimleiðinni var áð í skógarbrekku rétt vestan við Hítará og félagarnir settust að í kjarrivaxinni lautu og sungu; Ég vil elska mitt land og Erla góða Erla eftir Dalaskáldið Stefán frá Hvítadal. Leikbræður voru orðnir til sem söngkvartett og brekkan góða hlaut nafnbótina; Fagrabrekka. Nú er Friðjón Þórðarson einn eftir úr hópnum.

Mér finnst á stundum sem í Dölunum hafi tekist best að sameina ljóðið og lagið í mjúka ábreiðu, sem leggst yfir landið – undurblítt og söngurinn hljómar yfir dal og strönd. Þá koma í hug Ástvaldur og allir hinir Dalamennirnir sem ég hef staðið með á mismunandi pöllum tilverunnar.

Í áratugi voru Karlakór Reykjavíkur og Eldri félagar kórsins einn af þessum söngpöllum.

Ég ætla að nefna aðeins eitt orð um Ástvald Magnússon – mannkostamaður. Blessuð sé minning þeirra hjóna; Guðbjargar og Ástvaldar – Dalamanna.

Reynir Ingibjartsson.

Leiðir okkar Ástvaldar lágu fyrst saman fyrir rúmum aldarfjórðungi á Siglingamálastofnun ríkisins þar sem við störfuðum saman í u.þ.b. tíu ár.

Ástvaldur var sérstakur sómadrengur. Hann var allt í senn fágaður fagurkeri, félagslyndur og einstakur hagleiksmaður í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Allt lék í höndum hans hvort sem var í leik eða starfi. Það skipti ekki máli hvort það var bókhald, smíðar eða söngur, öllu skilaði hann með slíkri fágun og stíl að tæpast verður betur gert.

Það var mikill fengur fyrir Siglingamálastofnun að fá Ástvald í sínar raðir, en þar starfaði hann á annan áratug, lengst af sem skrifstofustjóri og hafði umsjón með rekstrar- og starfsmannamálum. Hann hafði góð áhrif á starfsandann og átti stóran þátt í því að gera vinnustaðinn jafn skemmtilegan og raun bar vitni. Árshátíðir, sumarferðir og aðrar samverustundir starfsmanna utan vinnutíma voru oftast skipulagðar af Ástvaldi og hann var hrókur alls fagnaðar þegar á hólminn var komið. Æskuslóðirnar voru Ástvaldi einstaklega kærar. Hann var alla tíð mikill Dalamaður í hjarta sínu og því var ekki að undra að árleg starfsmannasamkoma okkar á þorra fékk fljótlega nafnið Jörvagleði, en það mun vera þekktasta samkvæmi að fornu meðal Dalamanna. Það er þó trú mín að þessar samkomur hafi átt lítið sameiginlegt annað en nafnið eitt. Ást Ástvaldar á Dölunum kom oft fram hjá honum í daglegu tali, en umhyggja hans og natni við sumarbústaðinn sem þau Ástvaldur og Guðbjörg eiginkona hans byggðu sér á föðurleifð hennar á Breiðabólstað, sagði allt um þær hlýju tilfinningar sem hann bar til sveitarinnar. Við hjónin áttum þess kost að heimsækja þau í tvígang í sumarbústaðinn þar sem þau dvöldu ávallt þegar færi gafst og í bæði skiptin var Ástvaldur í vinnugallanum að smíða og dytta að húsinu enda var hann sívinnandi og féll sjaldnast verk úr hendi.

Fljótlega eftir að Ástvaldur hætti störfum á Siglingamálastofnun fyrir aldurs sakir tóku þau hjónin upp þann skemmtilega sið að líta við á heimili okkar Ragnheiðar eftir miðnætti á gamlársdag þegar þau höfðu fagnað áramótum með fjölskyldu sinni. Þessar heimsóknir voru okkur mjög kærar og eftirminnilegar. Guðbjörg settist við píanóið, Ástvaldur leiddi sönginn og allir tóku undir af hjartans lyst langt fram undir morgun. Þannig var það reyndar jafnan að gleðin fylgdi þeim hvert sem þau fóru. Minnisstæð er starfsmannaferð Siglingamálastofnunar sem farin var í Munaðarnes vorið 1990. Guðbjörg sat úti á palli við skemmtarann og spilaði af fingrum fram og Ástvaldur hélt uppi fjörinu á þann hátt að Söngvakeppni evrópsku sjónvarpsstöðvanna sem fram fór á sama tíma átti ekki möguleika að keppa við þau hjónin um athygli.

Ástvaldur og Guðbjörg voru einkar samrýnd hjón og það var eftirtektarvert að sjá þá umhyggju sem þau sýndu hvort öðru. Það var Ástvaldi mikið áfall þegar Guðbjörg féll frá á sl. ári og við fundum vel hve söknuður hans var sár.

Við Ragnheiður sendum börnum Ástvaldar og fjölskyldunni dýpstu samúðarkveðjur um leið og við þökkum forsjóninni fyrir að hafa kynnst og notið vináttu þeirra Ástvaldar og Guðbjargar. Guð blessi minningu þeirra.

Magnús Jóhannesson.

Í rúm 40 hafa eldri félagar úr Karlakór Reykjavíkur sungið saman, enda er sagt að söngurinn lengi lífið og menn eru blessunarlega lausir við að finnast þeir gamlir, geti þeir staðið á söngpöllunum og sungið. En alltaf kemur að leiðarlokum og nú kveðjum við einn okkar elsta og besta félaga – Ástvald Magnússon.

Ástvaldur hefur sjálfsagt sungið allt sitt líf og verið í mörgum kórum. Lengi söng hann í Karlakór Reykjavíkur og var formaður kórsins um skeið, en færði sig síðan yfir í kór eldri félaga og var með allt fram á síðasta haust.

Eitt það ánægjulegasta sem eldri félagarnir tóku sér fyrir hendur í söngnum var að syngja syrpu af lögum, sem kvartettinn Leikbræður sungu fyrir meira en hálfri öld. Ástvaldur var í þessum kvartett og þegar 60 voru liðin frá stofnun hans árið 1945 þótti mjög við hæfi að taka nokkur af þessum lögum á söngskrá kórsins. Annar félagi úr Leikbræðrum var líka í hópnum, mágur Ástvaldar, Friðjón Þórðarson, og að sjálfsögðu var farið í Dalina og sungið þar.

Ástvaldur var ekki aðeins góður söngmaður, heldur einstaklega hlýr og glaður félagi sem sárt er saknað úr hópnum. Fyrir rúmu ári lést Guðbjörg kona hans og það var ekki langt á milli þessara sæmdarhjóna, enda sérstaklega samrýnd.

Við gamlir félagar þökkum fyrir mörg góð ár og sendum börnum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. eldri félaga í Karlakór Reykjavíkur,

Lárus Lárusson.

Þeim fækkar óðum eldri félögum Karlakórs Reykjavíkur, sem með mér störfuðu sl. 14 ár. Ég get þakkað Ástvaldi það að ég réðst til að leiða söng þeirra félaga, en það var hann sem færði það fyrstur í tal við mig. Hann starfaði með mér öll árin og ég fann strax að þar fór enginn venjulegur maður. Það sem einkenndi hann fannst mér vera ljúfmennska, dæmafá. Hann hafði mikla söngreynslu og hafði mikið að gefa. Oftar en ekki leitaði ég í smiðju hans þegar mig vantaði útsetningar.

Ég minnist söngferðalaga okkar, einkum þegar Ástvaldur fór í hljóðnemann, þá sagði hann okkur ýmislegt spaugilegt enda var hann hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi. Hann studdi mig í starfi með ráðum og dáð og var jafnan atkvæðamikill í félagsstarfinu. Hann var þeirrar gerðar að öllum hlaut að þykja vænt um hann sem honum kynntust. Við starfslok mín vildi hann sæmd mína sem mesta og þeir feðgar buðu mér í mat og færðu mér síðar gjöf.

Ég er þakklátur fyrir samfylgdina og votta ástvinum hans mína dýpstu samúð.

Kjartan Sigurjónsson.

Mikill drengskaparmaður er fallinn frá (í hárri elli mundi hafa verið sagt hér áður), en á Ástvaldi Magnússyni var ekki elli að sjá þótt hann væri kominn hátt í nírætt, eða áttatíu og sjö ára. Ástvaldi kynntist ég fyrst 1955. Með okkur skapaðist strax vinátta sem aldrei bar skugga á. Sá sem einu sinni hafði kynnst Ástvaldi hlaut að muna strax hans glaðlega skap og einstaklega góða umtal um alla er hann þekkti. Samleið okkar Ástvaldar minnkaði í nokkur ár. Atvikin voru kannski þau m.a. að talsverður aldursmunur var á okkur, og svo að áhugamálin voru ólík. Á árunum fyrir 1960 urðu kynni okkar nánari er við byggðum okkur íbúðir í Langholtshverfi, hann í Álfheimum 19 en við hjónin í Gnoðarvogi 18. Um 1960 keypti ég bíl af Ástvaldi, Mercedes Bens 220, 1952-módel. Þann bíl flutti Ástvaldur inn og var hann vel með farinn og bar eiganda sínum svo sannarlega gott vitni. Löngu síðar er við Ástvaldur hittumst var hann að biðja mig afsökunar á smárispum sem höfðu verið á bílnum. Hann sagði mér að þau hjón hefðu átt sumarbústað á Brekku í Dölum en þar hefðu hestar nagað bretti bílsins. Mér sýndist þetta nú smámunir einir.

Ég var á sjúkrahúsi er Guðbjörg Helga lést og sannarlega vissi ekki af því vegna sjúkdóms míns. Ég veit að góður guð blessar minningu þessara ágætu hjóna. Hafið þökk fyrir góð kynni. Ástvinum öllum færi ég blessun guðs, og bið þann er öllu ræður að leggja líkn með þraut.

Karl Jóhann Ormsson.