Friðjón Þórðarson

0
2648
Friðjón Þórðarson var einn af stofnendum Leikbræðra

Friðjón Þórðarson frá Breiðabólsstað var fæddur þann 5.febrúar 1923 og hefði því orðið 90 ára í dag 5.febrúar 2013 hefði hann lifað.

Eins og fram kemur á öðrum stað hér á vefsíðunni er Búðardalur.is | Menningarmiðja Dalanna tileinkuð þessum mæta Daladreng sem unni Dölunum af lífi og sál og barðist fyrir uppbyggingu byggðar og menningar í Dölum alla tíð.

Friðjón fæddist á Breiðabólstað á Fellsströnd og ólst þar upp, hann var sonur þeirra Þórðar Kristjánssonar hreppstjóra og Steinunnar Þorgilsdóttur kennara.

Ætt Friðjóns hefur búið á Breiðabólstað frá 1776 en systir Þórðar var Salóme en hún var amma Svavars Gestssonar fyrrverandi ráðherra og sendiherra.  Meðal systkina Steinunnar, sem var af Ormsætt, voru Helga, yfirkennari Melaskólans, Þórhallur magister, faðir Ólafs Gauks, og Fríða, móðir Auðar Eydal.

Fyrri kona Friðjóns var Kristín Sigurðardóttir en hún lést árið 1989. Þau Friðjón og Kristín en þau eignuðust fimm börn.  1) Sigurður Rúnar mjólkurbústjóri á Akureyri, f. 1950, maki Guðborg Tryggvadóttir húsmóðir.

2) Þórður forstjóri Kauphallarinnar, f. 1952-d.8.2.2011, maki I Þrúður Guðrún Haraldsdóttir, maki II Ragnheiður Dögg Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri Tryggingamiðstöðvarinnar.

3) Helgi Þorgils myndlistarmaður og kennari, f. 1953, maki Margrét Lísa Steingrímsdóttir forstöðukona.

4) Lýður Árni fjárfestir og framkvæmdastjóri, f. 1956, maki I Ásta Pétursdóttir, maki II Renate Mikukste lögfræðingur.

5) Steinunn Kristín flugfreyja og húsmóðir, f. 1960, maki Árni Mathiesen dýralæknir og fyrrverandi ráðherra. Seinni kona Friðjóns var Guðlaug Guðmundsdóttir, sem lést 2011.

Friðjón lauk stúdentsprófi frá MR 1941, embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1947, dvaldi við nám við aðalstöðvar SÞ í New York 1949 og við Ríkislögregluskólann í New Haven. Hann öðlaðist hæstaréttarlögmannsréttindi árið 1991.

Friðjón var fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík og oft settur lögreglustjóri, settur bæjarfógeti á Siglufirði, sýslumaður Dalasýslu 1955-65, Snæfellsness- og Hnappadalssýslu 1965-75 og sýslumaður Dalasýslu frá 1991-93 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Friðjón var landskjörinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1956-59, þingmaður Vesturlandskjördæmis 1967-91 og dóms- og kirkjumálaráðherra og samstarfsráðherra um norræn málefni 1980-83.

coverFriðjón var einn stofnenda og söng með kvartettinum Leikbræðrum 1945-52 sem gaf út hljómplötu 1977 og söngbók með kvartettútsetningum nokkru síðar.

Friðjón sat í stjórn ungmennasambands Dalamanna og var formaður Breiðfirðingafélagsins í Reykjavík.

Hann var stjórnarformaður Sparisjóðs Dalasýslu og sparisjóðsstjóri, var formaður bankaráðs Búnaðarbanka Íslands, sat í hreppsnefnd Stykkishólmshrepps 1966-70, var formaður Breiðafjarðarnefndar frá stofnun hennar og var formaður nefndar um Eiríksstaði í Dalasýslu.

Friðjón var gerður að heiðursborgara Dalabyggðar árið 2006 vegna óeigingjarns starfs hans og eljusemi í þágu samfélagsins.

Friðjón Þórðarson lést þann 14.12. 2009
Hér getur þú hlustað á lagið „Litla skáld á grænni grein“ sungið af Leikbræðrum.

{audio}litla_skald.mp3{/audio}

Heimildir: Alþingi.is / Morgunblaðið / Þorgeir Ástvaldsson / Pétur Ástvaldsson