Söngkvartettinn Leikbræður starfaði á árunum 1945 til 1955. Í kvartettinum voru (f.v. á mynd): Gunnar Einarsson 1. tenór, Ástvaldur Magnússon 2. tenór , Torfi Magnússon 1. bassi og Friðjón Þórðarson 2. bassi. Þeir Ástvaldur og Torfi voru bræður og Friðjón mágur Ástvaldar.
Leikbræður voru Dalamenn að uppruna, nema Gunnar sem var Reykvíkingur. Upphaflega sungu fjórmenningarnir í Breiðfirðingakórnum, undir stjórn Gunnars Sigurgeirssonar (sjá mynd), en hann varð undirleikari kvartettsins. Carl Billich, sá mikli snillingur, þjálfaði Leikbræður og raddsetti flest laga þeirra. Friðjón 2. bassi orti einnig allmarga texta.
Árið 1990 stóðu Leikbræður fyrir útgáfu nótnabókarinnar Söngbræðralög, í minningu Carls Billich. Bókin hefur að geyma 40 lög sem Carl útsetti fyrir kvartett og píanó, jafnt Leikbræður sem aðra söngkvartetta og var hún endurútgefin 2007.
Nú er í undibúningi útgáfa með sögu Leikbræðra og tónlist þeirra. Það eru fjölskyldur þeirra Leikbræðra sem standa að útgáfunni. Verkefnið mun verða kynnt síðar á vefsíðunni www.leikbraedur.is