Bara tímaspursmál hvenær verður alvarlegt slys

0
17033

Síðastliðið mánudagskvöld 20.mars náðist myndskeið af því þegar vöruflutningabifreið á suðurleið var ekið eftir Vesturlandsvegi í gegnum þorpið í Búðardal. Á myndskeiðinu hér fyrir neðan sést hvar vörbifreiðinni er ekið yfir á rangan vegarhelmingi móts við verslun Samkaupa.

Í gegnum árin hafa íbúar Búðardals kvartað yfir hraðakstri í gegnum þorpið og ekki síst hraðakstri vörubifreiða sem leið eiga í gegnum þorpið með tilheyrandi hávaða, rykmengun, svo ekki sé talað um slysahættu. Þetta á við hvort heldur er dagur og bjart eða kvöld og myrkur.

Fyrir ekki svo löngu síðan var farið í þá framkvæmd að þrengja aðra akreinina við gangbraut sem liggur milli Grunnskólans í Búðardal og tjaldsvæðisins á staðnum og verslun Samkaupa í þeim tilgangi að reyna að draga úr umferðarhraða. Einhverjir íbúar hafa haldið því fram að eina raunhæfa leiðin til að draga úr umferðarhraða í gegnum þorpið sé að setja upp hringtorg beggja vegna þorpsins.

Íbúi sem rætt var við sagði að miðað við núverandi ástand væri bara tímaspursmál hvenær yrði alvarlegt slys vegna hraðaksturs í gegnum þorpið en þjóðvegurinn í gegnum þorpið er beinn og greiður.

Á meðfylgjandi myndskeiði sem Katrín Lilja Ólafsdóttir íbúi í Búðardal birti á Fésbókarsíðu sinni síðastliðið mánudagskvöld sést hvar vörubifreiðinni er ekið til suðurs í gegnum þorpið og hvar henni er ekið á yfir á rangan vegarhelming til þess að þurfa ekki að draga úr hraða.