Selir í Búðardal

0
5706

Að selir sjáist í sjónum hér er kannski ekki nýmæli en nú eru þeir komnir með aðsetur á landi í Búðardal.

Í dag, þann 26.september 2017, komu tveir kópar til haustdvalar í nýútbúnu gerði með sundlaug. Gerðið er staðsett niðri við höfn rétt við Leifsbúð.

Kóparnir, sem talið er að séu báðir brimlar, koma úr Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þar sem þeir fæddust í byrjun sumars.

 

 

Staðreyndir um landseli:

  • Brimlar geta orðið allt að 2 metrar að lengd og milli 100 og 150 kíló, urtur eru aðeins minni.
  • Talið er að urtur geti orðið 35 ára en brimlar lifa yfirleitt skemur.
  • Uppistaða fæðu er smáfiskur af ýmsu tagi.
  • Geta kafað í allt að 25 mínútur og niður á 50 metra dýpi.
  • Kópar eru milli 10-15 kíló við fæðingu og eru strax syndir.
  • Eru háðir móður sinni með mjólk úr spena í 3-4 vikur en sjá svo um sig sjálfir.
  • Meira um landseli og staðreyndirnar að ofan má finna hér.
Selirnir voru forvitnir en varir um sig.

Kóparnir sem hingað eru komnir eru því óháðir móður sinni og fá fisk að éta líkt og fullorðnir selir.

Fyrir veturinn safna þeir forða og er því líklegt að þeir eigi eftir að þyngjast hratt næstu vikur. Einnig eru þeir að kynnast nýju umhverfi og upplifa margt í fyrsta sinn svo sem að snerta sand og gras.

Að verkefninu stendur Svavar Garðarsson í samstarfi við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og sveitafélagið Dalabyggð. Öll vinna í kringum uppsetningu gerðis, sundlaugar og undirbúning undir komu kópanna verið í sjálfboðavinnu.

 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem voru teknar í dag.

Vert er að taka fram að selir eru ekki mikið fyrir klapp og bíta frá sér en annars eru þeir ljúfir. Óheimilt er að gefa þeim að borða og að sjálfsögðu má ekki fara inn fyrir girðingu.

Verkefninu fylgja ótal tækifæri og vonandi er þetta byrjun á farsælu samstarfi milli þeirra sem að því koma. Líklegt er að mikið aðdráttarafl fylgji selunum sem kjörið væri fyrir sveitafélagið eða einkaaðilla að nýta.