Forseti Íslands kemur í opinbera heimsókn í Dali í desember

0
3029
Guðni Th Jóhannesson og Eliza Reid. Ljósmynd af vef forsetaembættisins

Dagana 6. og 7.desember næstkomandi mun forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson koma í opinbera heimsókn í Dalabyggð ásamt föruneyti.

Forsetinn mun heimsækja og kynna sér áhugaverða staði ásamt vinnustöðum í Dalabyggð. Í tilefni af heimsókn forsetans mun verða haldin fjölskylduskemmtun í Dalabúð í Búðardal fimmtudaginn 7.desember kl.17:00 sem mun standa í um einn og hálfan tíma.

Vitað er að forsetinn mun heimsækja grunn og leikskóla í Búðardal, heimsækja Lauga í Sælingsdal og það sem þar er að finna. Einnig mun forsetinn skoða fyrirhugaðan Sturlureit að Staðarhóli í Saurbæ en þar mun Svavar Gestsson Dalamaður og fyrrverandi ráðherra eflaust leiða forsetann um slóðir Sturlu Þórðarsonar Dalamanns og sagnaritara.

Forsetinn mun þá heimsækja Skarð á Skarðsströnd og fara fyrir Klofning og heimsækja þá fallegu og merku staði sem á Skarðsströnd og Fellsströnd er að finna.

Þann 25.júní 2016 fóru fram forsetakosningar á Íslandi þar sem Guðni Th.Jóhannesson var réttkjörinn forseti. Það var svo 1.ágúst 2016 sem Guðni var settur í embætti og tók þá við af Ólafi Ragnari Grímssyni sem gengt hafði embættinu í fimm kjörtímabil eða í 20 ár

Guðni er því að hefja 16.mánuð sinn í embætti forseta Íslands í byrjun desember þegar hann kemur og heiðrar Dalamenn með nærveru sinni.

Gaman er að segja frá því hér að Eliza Reid forsetafrú var gestur í þættinum Vikan hjá Gísla Marteini á RÚV í kvöld þegar þessi frétt er skrifuð en þátt Gísla Marteins og viðtalið við Elizu Reid má finna hér.

Við hvetjum Dalamenn alla að taka vel á móti forseta vorum og fylgdarliði dagana 6.til 7.desember í Dölum og taka þátt í þeirri dagskrá sem nánar verður auglýst hér á vefnum þegar nær dregur heimsókninni.