Forseti Íslands: „Þið eruð höfðingjar heim að sækja“

0
4027

Það var heldur vetrarlegt veðrið sem tók á móti Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, eiginkonu hans Elisu Reid og fylgdarliði þegar forsetinn kom í opinbera heimsókn í Dalabyggð í dag.

Forsetinn hóf heimsókn sína á því að heimsækja Dvalar-og hjúkrunarheimilið að Fellsenda en þaðan lá leiðin að Rjómabúinu að Erpsstöðum þar sem bændurnir Þorgrímur og Helga tóku á móti forsetahjónunum og kynntu þeim fyrir þeirri starfssemi og búskap sem þar er stundaður.

Þá fóru forsetahjónin í heimsókn í Mjólkurstöðina í Búðardal þar sem þau kynntu sér þá starfssemi sem þar fer fram. Að þeirri heimsókn lokinni lá leiðin í Leifsbúð þar sem haldinn var opinn kynningarfundur um framtíð ferðaþjónustu í Dölum.

Að lokum var haldið í hríðarbyl inn að Laugum í Sælingsdal þar sem byggðasafn Dalamanna var heimsótt. Forsetahjónin snæddu síðan kvöldverð á Laugum þar sem þau munu einnig gista. Á morgun verður svo farið um Skarðsströnd og Fellsströnd ásamt því að heimsækja grunn og leikskóla í Búðardal, Eiríksstaði í Haukadal, Kvennabrekkukrikju, Kringlu í Miðdölum en dagurinn mun svo enda á fjölskylduskemmtun í Dalabúð klukkan 17:00.

Þegar Þorgeir Ástvaldsson tók Guðna Th. Jóhannesson tali í lok dags var hann ánægður með daginn og sagði meðal annars, „Það má með sanni segja um ykkur Dalamenn, að þið eruð höfðingjar heim að sækja“. Viðtalið við Guðna má finna í spilaranum hér fyrir neðan.