Minnismerki um Árna Magnússon afhjúpað við Kvennabrekku

0
3250

Eitt af því sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson gerði í opinberri heimsókn sinni í Dalabyggð þann 7.desember síðastliðinn var að afhjúpa minnismerki um Árna Magnússon handritasafnara. Að þessu verkefni hafa staðið þeir Svavar Gestsson Dalamaður og fyrrverandi ráðherra og Þorgrímur Einar Guðbjartsson bóndi og athafnamaður á Erpsstöðum ásamt fleira fólki.

Guðni sagði það vera honum bæði heiður og ánægja að vera viðstaddur þetta tilefni og sagði það afskaplega vel til fundið að hafa umrætt minnismerki um Árna Magnússon á þessum stað við Kvennabrekku.

Þá tók Svavar Gestsson til máls við þetta tilefni en hann talaði um meðal annars að það mætti kannski líta á þetta skilti sem fyrsta áfangann í mörgum skiltum sem að verða sett upp á næstu árum við helstu sögustaði í Dölum.

Svavar Gestsson Dalamaður og fyrrverandi ráðherra

Þá sagði Svavar: „Hugmyndin er sú að við Mjólkurstöðina í Búðardal verði sett upp gríðarlega mikið sögulegt skilti sem vísar til þessara helstu staða á korti. Og í framhaldi af því verði sett upp skilti við bæina. Lauga, Hvamm, Staðarfell, Skarð, Geirmundarstaði, Staðarhól og þetta er svæðið sem ég hef kallað gullna söguhringinn“.

Þá notaði Svavar Gestsson tækifærið og færði viðstöddum kveðjur frá Guðrúnu Nordal hjá Stofnun Árna Magnússonar en hún aðstoðaði við gerð minnismerkisins ásamt fleirum.

Í spilaranum hér fyrir neðan má horfa á athöfnina við afleggjarann heim að Kvennabrekku þann 7.desember þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhjúpar minnismerkið með Þorgrími Einari Guðbjartssyni bónda á Erpsstöðum. Einnig má heyra ávarp Svavars Gestssonar vegna þessa viðburðar ásamt viðtali Þorgeirs Ástvaldssonar við Svavar.