Forug forsetabifreið eftir ferð um Dali

0
3037
Audi forsetabíll númer 3. Forugur eftir ferð um Skarðs- og Fellsströnd. Ljósm.Búðardalur.is

Það er ekki annað að heyra en heimsókn forsetahjónanna Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reid í Dali hafi tekist með ágætum þótt dagskrá hafi verið nokkuð stíf og víða komið við á tiltölulega stuttum tíma.

Opinberar heimsóknir forseta Íslands hafa jafnan, ef ekki alltaf, verið farnar á öðrum tímum árs en í skammdeginu hvað þá á jólaföstunni. Þetta var því um margt tímamótaferðalag í nafni embættisins. En Dalir geta líka verið fjarska fallegir í vetrarbúningi ef færð er bærileg og bílarnir vel útbúnir.

Það fékk forsetinn og fylgdarlið að reyna og einnig hvað ásýnd bílalestarinnar var fljót að breytast þar sem farið var eftir blautum vegunum hér og þar. Það voru brúnir og drullugir bílar sem renndu í hlað við Dalabúð eftir að ekið hafði verið fyrir strandir. Það er jú hvergi bundið slitlag að finna á Skarðströnd, Fellsströnd og varla í Hvammssveitinni.

Forsetabílstjórinn þrífur forsetabílinn hjá Valdísi Gunnarsdóttur Ljósm. Valdís Gunnarsdóttir

Á meðan forsetahjónin heimsóttu Auðarskóla, kynntu sér starfsemina og töluðu við unga fólkið, þá sá Valdís Gunnarsdóttir formaður menningar- og ferðamálanefdar Dalabyggðar  sér leik á borði og opnaði þvottaaðstöðu á sínu heimili. Bauð hún bílstjórum að skola af bílunum og var það vel þegið og þvegið.

Gljásvartar glæsikerrur komu í ljós og förinni áfram heitið suður á bóginn, á bundnu slitlagi að mestu. Með þessum bílaþvotti og tilheyrandi myndum hér er rækilega minnt á það hversu lúið vegakerfi Dalanna er víða orðið og hversu brýnt er að bæta úr því ástandi sem allra fyrst. Sú staðreynd að aðeins 30% af vegunum sé með bundnu slitlagi er ekki lengur íbúum bjóðandi hvað þá forseta Íslands og fylgdarliði.
Í fyrra var skrifuð frétt hér á vefnum þar sem vitnað var í sveitarstjóra Dalabyggðar sem talaði um að um 70% vega í Dölum væru malarvegir. Fréttina má finna hér.