Ívar Atli gerði Scania sjónvarpsskenk

0
2397

Daladrengurinn Ívar Atli Brynjólfsson hefur ratað í fjölmiðla fyrir nýja sjónvarpsskenkinn sinn og fannst okkur hér hjá budardalur.is ekki vera hjá því komist að fjalla um þetta nýja húsgagn Ívars.

Um er að ræða hluta af framenda af Scania vörubifreið eða Scania grill. Ívar Atli er mikill Scania aðdáandi og starfar einmitt hjá fyrirtækinu Klettur sala og þjónusta ehf þar sem hann er sölufulltrúi og sér hann þar um að sækja og nýskrá nýjar Scania vörubifreiðar sem dæmi.

Jón Bragi Brynjólfsson vinur Ívars hjálpaði honum að búa til stofustássið og sagði Ívar að mjög mikil vinna hafi verið lögð í sprautun á grillinu eða um 30 vinnustundir.

Frábær hugmynd og glæsileg útkoma hjá þeim vinunum eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum og myndbandinu hér fyrir neðan sem sýnir þá liti sem Ívar getur valið um að hafa á bakvið nýja skenkinn.

Ef þið hafið einhverjar ábendingar um skemmtilega hluti sem Dalamenn eru að fást við þá endilega sendið okkur línu á budardalur@budardalur.is