Dalabóndi sló tún í frosti um liðna nótt

0
4085

Stórbóndinn Unnsteinn Hermannsson á Leiðólfsstöðum í Dalabyggð birti síðastliðna nótt á Snapchat reikningi sínum myndskeið sem sýnir heldur kuldarlega sumarnótt í Laxárdalnum og sýnir hversu mikill munur getur orðið á hitastigi á einum sólarhring en einn besti og hlýjasti dagur sumarsins hefur verið í Dölum í dag en hitinn fór í um það bil 15 gráður í dag.

Unnsteinn var við slátt á bænum Svarfhóli í Laxárdal um klukkan 02:00 í nótt og í samtali segist hann hafa tekið eftir því að garðar sem hann hafði slegið fyrr um daginn voru orðnir hélaðir vegna kulda en hitastigið í nótt hefur farið eitthvað niður fyrir frostmark.

Meðfylgjandi myndskeið sem tekið er af Snapchat reikningi Unnsteins sýnir hversu kalt hefur verið í Laxárdalnum um liðna nótt og má sjá Unnstein brjóta klaka af sláttuvélinni.

Þeir sem hafa áhuga á að fylgja Unnsteini Hermannssyni á Snapchat geta fundið hann þar undir notendanafninu: steinileidolf