Afmælisveislu breytt í brúðkaupsveislu

0
3235
Mynd af brúðhjónunum með botninn á Flekkudal í baksýn - Ljósm: Jón Egill og Bjargey

Snemma í vor buðu hjónin Friðjón Guðmundsson og Kristín Heiðbrá Sveinbjörnsdóttir,ábúendur á Hallsstöðum ,vinum og vandamönnum til afmælisveislu sem haldin var þann 27.júlí síðastliðinn.

Fjölskyldumynd, Friðjón og Krístin ásamt börnum, barnabarni, tengdadóttur og Ester móðir Friðjóns – Ljósm: Jón Egill og Bjargey

Fylgdi boðinu að um væri að ræða ferfalt afmæli. Friðjón 60 ára, Kristín 50 ára, börnin Signý 30 ára og Einar Hólm 20 ára. Skyldi afmælið stóra byrja á ferð þar sem farið yrði ríðandi eða akandi fram að Álfagili sem er innarlega í dalnum fagra Flekkudal.

Þar er mikið mannvirki,grjóthlaðin rétt Fellstrendinga sem byggð er árið 1896 en aflögð 1962.Þá var hún færð út dalinn og er nú staðsett niður undan Hallsstöðum. Þegar komið var frameftir  kom á daginn að erindið var ekki áðurnefnd afmæliveisluhöld heldur ákváðu hjónaefnin að láta gefa sig saman.

Sóknarpresturinn í Dölum séra Anna Eiríksdóttir var með í för og sá um fallega athöfn í laut niður undan réttinni ,hvar hrossin mynduðu nokkurs konar altar. Þetta kom gestum algjörlega á óvart en varð sannkölluð gleðistund í kyrrlátum grösugum dalnum. Enginn hafði munað eftir því að Friðjón og Kristín hefðu gifst einhvern tíma en þau hafa búið saman í yfir 40 ár.

Friðjón að leiða hestahópinn upp í Flekkudalsrétt – Ljósm: Jón Egill og Bjargey

Síðan var boðað til afmælisveislunnar  sem líka var orðin að giftingarveislu í félagsheimilinu að Staðarfelli. Þar var ríkulega veitt í mat og drykk, spilað og sungið framá nótt. Stórskemmtilegur og  eftirminnilegur dagur fyrir alla sem tóku þátt.

Búðardalur.is óskar Friðjóni og Kristínu til hamingju með ráðahaginn og megi þeim farnast vel um ókomna tíð.