Fram kemur á vef Ríkisútvarpsins í kvöld að þök hafi fokið af gripahúsum á þremur bæjum í Laxárdal í dag en vitað er að björgunarsveitarmenn fóru meðal annars að bænum Gröf og að Spágilsstöðum til að festa þakplötur sem voru byrjaðar að losna af útihúsum.
Tilkynnt var um foktjón á bænum Brekku í Saurbæ og heyrst hefur af tjóni frá fleiri bæjum í Saurbæ en björgunarsveitarmenn hafa ekki komist i Saurbæ sökum veðurofsans og ófærðar.
Þegar Búðardalur.is heyrði í íbúa í Saurbæ fyrr í kvöld sagði hann heimilisfólk vera komið undir þrjár sængur til að halda á sér hita en þá mun hafa verið farið að kólna verulega í íbúðarhúsinu enda er rafmagnskynding á bænum.
Rafmagn fór svo af Laxárdal um klukkan 19:30 í kvöld og hefur ekki tekist að koma því aftur á þegar þetta er ritað. Veðrið virðist lítið vera að ganga niður en nú um klukkan 02:00 eru 27 metrar á sekúndu á Laxárdalsheiði og fara hviður allt upp í 44 metra á sekúndu.
Starfsmenn Rarik og björgunarsveitarmenn halda nú að sér höndum og bíða þar til veðrinu fer að slota en fara þá í aðgerðir við að koma rafmagni aftur á og við að aðstoða fólk vegna afleiðinga veðurofsans.