Í einni setningu má segja að markmið þessarar vefsíðu sé að stuðla að varðveislu menningartengdra heimilda úr Dalabyggð í víðustu merkingu.

Það var síðla árs árið 2010 að Sigurður Sigurbjörnsson keypti lénið Búðardalur.is í þeim tilgangi að safna undirskriftum á netinu til að mótmæla niðurlagningu eina stöðugildis lögreglumanns í Dölum. Alls söfnuðust um 1400 undirskriftir á netinu og var þeim komið í hendur Ögmundar Jónassonar dómsmálaráðherra.  Allar upplýsingar og fréttir sem fram komu á undirskriftasíðunni má finna hér á þessari síðu. Fréttir frá þessum tíma má finna undir: Forsíða-fréttir-löggæslumál, en undirskriftalistann sem afhentur var Ögmundi má finna hér á síðunni undir: Dalalíf-löggæslumál-undirskriftalisti 2010.

Eftir þessa vinnu kviknaði sú hugmynd hjá Sigurði að halda léninu og nota það áfram Dölunum til heilla. Það var svo fljótlega eftir að þessi hugmynd kviknaði að Þorgeir Ástvaldsson Fellsstrendingur með meiru kom inn í verkefnið með Sigurði og hefur Þorgeir séð um viðtöl sem tekin hafa verið fyrir vefinn ásamt vinnu við efnisöflun.

Helgi Þór Guðmundsson kerfisfræðingur hefur séð um forritun á vefnum en Helgi starfar sem kerfisstjóri hjá prentsmiðjunni Prentmet ehf sem er ein stærsta prentsmiðja landsins. Þar hefur hann sinnt margvíslegum hlutverkum þ.m.t. vefhönnun, vefumsjón og markaðssetningu á netinu. Helgi var hvatamaður og hugmyndasmiður á bakvið DFS.is en DFS er sunnlenskur fréttavefur rekinn samhliða Dagskránni Fréttablaði Suðurlands.

Markmiðið með vefnum er að virkja Dalamenn sem og brottflutta til þess að safna saman á einn stað menningargildum tengdum Dölum í hvaða formi sem er s.s. ljósmynum, kvikmyndum, sögum, ljóðum, frásögnum og jafnvel ýkjusögum. Einnig að birta fréttir úr héraðinu af því sem er að gerast á líðandi stundu sem og að safna saman upplýsingum um aðra miðla sem fjalla um málefni tengd Dölum. Vefnum er ætlað að efla og styrkja ferðaþjónustu á svæðinu og skapa nýjan vettvang fyrir heimamenn til að koma hugmyndum sínum, verkefnum eða hugðarefnum á framfæri með einföldum hætti.

fridjonthordarsonFriðjón Þórðarson
Ég hef kosið að tileinka þessa menningarsíðu okkar Dalamanna,  Daladrengnum góða og stórvini mínum Friðjóni Þórðarsyni frá Breiðabólsstað á Fellsströnd.
Friðjón var sá maður sem hvað ötulast barðist fyrir framförum og uppbyggingu í Dalasýslu alla sína tíð.  Friðjón var fæddur þann 5. febrúar árið 1923, og lést þann 14. desember árið 2009.

Guð blessi minningu þessa góða Daladrengs.

Sigurður Sigurbjörnsson.

 

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, minntist Friðjóns Þórðarsonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra á þingfundi daginn eftir andlát hans.

Minningarorð þingforseta fara hér á eftir:

Friðjón Þórðarson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést í gær. Hann var á 87. aldursári.

Friðjón Þórðarson fæddist á Breiðabólstað á Fellsströnd 5. febrúar 1923. Foreldrar hans voru hjónin Þórður Kristjánsson, bóndi og hreppstjóri þar, og Steinunn Þorgilsdóttir kennari. Friðjón gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1941. Lagði hann síðan stund á lögfræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan embættisprófi í þeirri grein 1947. Hann öðlaðist réttindi héraðsdómslögmanns 1948 og hæstaréttarlögmanns 1991. Veturinn 1949 til 1950 var hann í náms- og kynnisdvöl við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York og við ríkislögregluskólann í New Haven, Connecticut, Bandaríkjunum.

Að loknu lagaprófi varð Friðjón Þórðarson fulltrúi borgardómarans í Reykjavík og síðar lögreglustjórans í Reykjavík á árunum 1947-1955, og var þá oft settur lögreglustjóri um skamman tíma. Hann var settur bæjarfógeti um tíma bæði á Akranesi og síðar á Siglufirði, en var skipaður sýslumaður í heimahéraði sínu, Dalasýslu, 1955 og gegndi því starfi til 1965, varð sýslumaður þar á ný 1991-1993. Árið 1965 flutti hann sig um set og varð sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu um 10 ára skeið.

Friðjón Þórðarson gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum í héraði og á landsvísu. Hann var stjórnarformaður Sparisjóðs Dalasýslu hin fyrri sýslumannsár sín þar, sat í bankaráði Búnaðarbanka Íslands 1960-1993, formaður þess 1969-1972. Hann sat lengi í stjórnum Sementsverksmiðju ríkisins, Brunabótafélags Íslands og síðar Vátryggingafélags Íslands. Þá sat hann í hreppsnefnd Stykkishólmshrepps 1966-1970.

Friðjón Þórðarson var fyrst í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Dalasýslu við kosningarnar 1953, þrítugur að aldri, og á ný í alþingiskosningunum 1956. Þá hlaut hann sæti sem 11. landskjörinn þingmaður og sat til vors 1959. Í kosningunum 1959 og 1963 var hann ofarlega á lista Sjálfstæðisflokksins í Vesturlandskjördæmi og sat um tíma sem varamaður á Alþingi 1962. Hann var síðar kjörinn alþingismaður Vesturlandskjördæmis 1967 og sat samfleytt til vors 1991. Alls sat Friðjón á 30 þingum.

Í hinni sögulegu stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens í febrúar 1980 varð Friðjón Þórðarson dóms- og kirkjumálaráðherra og jafnframt samstarfsráðherra um norræn málefni. Gegndi hann ráðherrastörfum til 26. maí 1983.

Á Alþingi átti Friðjón lengi sæti í fjárveitinganefnd. Hann gegndi varaforsetastörfum í sameinuðu Alþingi árin 1973-1979. Hann var virkur í alþjóðlegu samstarfi Alþingis, m.a. í þingmannasamtökum NATO, Evrópuráðsins, EFTA og Vestnorræna ráðinu.

Friðjón Þórðarson átti sterkar rætur í Dalasýslu og á Vesturlandi og þeim héruðum helgaði hann krafta sína lengi. Hann varð á ungum aldri sýslumaður þar og alþingismaður, og jafnframt forustumaður í félagsmálum. Naut hann þar vinsælda sinna, bæði í héraði og á landsvísu, en þjóðþekktur varð hann með kvartettinum Leikbræðrum á sjötta áratug síðustu aldar. Hafði hann góða söngrödd og söng með eldri félögum Karlakórs Reykjavíkur fram á síðustu ár. Auk þessa var Friðjón fimur við vísna- og ljóðagerð. Í starfi sínu varð hann fjölfróður um fólk og sögu svo að með afbrigðum var. Sýndi hann sínu fólki mikla ræktarsemi, ritaði um sögu Breiðafjarðar og stóð fyrir margvíslegri menningarstarfsemi í héraði, ekki síst á Eiríksstöðum í Haukadal. Hann átti sæti í stjórn Hollvinasamtaka Dalamanna.

Friðjón Þórðarson átti traustu fylgi að fagna á þingmannsferli sínum. Hann var fylginn sér, en jafnan prúður í málafylgjunni. Er hann hvarf af þingi átti hann nokkur góð starfsár í Búðardal og hélt ótrauður áfram að efla hag sýslunga sinna og Vestlendinga allra og dró hvergi af sér þótt aldurinn færðist yfir hann. Á því sviði skilaði hann miklu verki. Síðustu viðfangsefni hans voru safn um Leif Eiríksson og um Sturlu sagnritara Þórðarson.

Ég bið þingheim að minnast Friðjóns Þórðarsonar með því að rísa úr sætum.

Ágrip um Friðjón:

F. á Breiðabólstað á Fellsströnd 5. febr. 1923, d. 14. des. 2009. For.: Þórður Kristjánsson (f. 26. mars 1890, d. 19. maí 1967) bóndi og hreppstjóri þar, bróðir Salome ömmu Svavars Gestssonar alþm., og k. h. Steinunn Þorgilsdóttir (f. 12. júní 1892, d. 4. okt. 1984) kennari. Faðir Sigurðar Rúnars vþm., tengdafaðir Árna M. Mathiesens alþm. K. 1. (28. okt. 1950) Kristín Sigurðardóttir (f. 30. des. 1928, d. 19. maí 1989) húsmóðir. For.: Sigurður Lýðsson og k. h. Guðrún Bárðardóttir. K. 2. (29. júní 1992) Guðlaug Guðmundsdóttir (f. 14. ágúst 1936) húsmóðir. For.: Guðmundur Halldór Þorláksson og k. h. Ingunn Sigríður Tómasdóttir. Börn Friðjóns og Kristínar: Sigurður Rúnar (1950), Þórður (1952), Helgi Þorgils (1953), Lýður Árni (1956), Steinunn Kristín (1960).
Stúdentspróf MR 1941. Lögfræðipróf HÍ 1947. Hdl. 1948. Hrl. 1991. Náms- og kynnisdvöl við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York sept.—des. 1949 og við State Police Academy í New Haven, Connecticut, Bandaríkjunum febr.—júní 1950.

Hóf störf hjá Ragnari Jónssyni hæstaréttarlögmanni að loknu prófi. Settur bæjarfógeti á Akranesi ágústmánuð 1947. Fulltrúi borgardómarans í Reykjavík 1947—1948. Fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík 1948—1949, 1950—1951 og 1952—1955. Oft settur lögreglustjóri í Reykjavík 1948—1955. Settur bæjarfógeti á Siglufirði 1951—1952. Sýslumaður í Dalasýslu 1955—1965 og 1991—1993. Sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu 1965—1975. Skip. 8. febr. 1980 dóms- og kirkjumálaráðherra og samstarfsráðherra um norræn málefni, lausn 28. apríl 1983, en gegndi störfum til 26. maí.Stjórnarformaður Sparisjóðs Dalasýslu 1956—1965. Í bankaráði Búnaðarbanka Íslands 1960—1993, formaður 1969—1972. Í hreppsnefnd Stykkishólmshrepps 1966—1970. Sat á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1966, 1985, 1987 og 1990. Fulltrúi Íslands í Þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsríkjanna 1967—1974 og 1976, formaður íslensku sendinefndarinnar 1968—1971. Fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins 1974. Fulltrúi Íslands á fundum þingmannanefndar EFTA 1975, 1977 og 1988. Í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins 1977—1993. Í stjórn Brunabótafélags Íslands frá 1979, formaður 1987, og Vátryggingafélags Íslands síðan 1989. Í Íslandsdeild Norðurlandaráðs 1983—1987 og sat aukaþing ráðsins 1988. Í Vestnorræna þingmannaráðinu 1985 og 1987—1989, formaður.

Landsk. alþm. (Dal.) 1956—1959, alþm. Vesturl. 1967—1991 (Sjálfstfl.).
Vþm. Vesturl. mars 1962.
Dóms- og kirkjumálaráðherra og samstarfsráðherra um norræn málefni 1980—1983.
1. varaforseti Sþ. 1973—1974 og 1978—1979, 2. varaforseti Sþ. 1974—1978 og 1979.

Heimild: Alþingi.is

joomla_logo_black-196x108Eins og gefur að skilja hefur vefmiðill líkt og Búðardalur.is ekki úr miklu að spila fjárhagslega og mannskapslega og höfum við í gegnum árin keyrt þetta áfram á áhuganum einum saman. Við höfum þó fengið einn styrk frá Menningarsjóði Vesturlands og Menninga og framfarasljóði Dalasýslu og er það vel.

Hafir þú einhvern möguleika á að styrkja okkur eða hefur áhuga á að skrifa, leggja til efni eða benda okkur á efnistök þá óskum við einlæglega eftir aðstoð þinni.

Bankaupplýsingar:
Búðardalur.is
kt.570914-0650
Reikningur: 0312-26-4000

Netfang: budardalur@budardalur.is

Við erum

450 INNLEGG0 ATHUGASEMDIR
37 INNLEGG0 ATHUGASEMDIR