Aldarafmæli Jóns frá Ljárskógum

0
1318

jonfraljarskogumDalaskáldið Jón Jónsson frá Ljárskógum var fæddur þann 28.mars árið 1914. Þann 28.mars 2014 næstkomandi verða því 100 ár frá fæðingu Jóns.

Af því tilefni hefur Búðardalur.is í samstarfi við Hilmar B. Jónsson, son Jóns, efnt til uppákomu í félagsheimilinu Dalabúð í Búðardal laugardaginn 29.mars næstkomandi.

Ætlunin er að minnast Jóns frá Ljárskógum í máli, myndum og söng og vonandi með þátttöku sem flestra Dalamanna og þeirra sem áhuga hafa, allir eru velkomnir. Dagskráin hefst klukkan 15:00 og er aðgangur ókeypis.

Ættingjar Jóns hafa ákveðið að koma vestur í rútu en áður en formleg dagskrá hefst munu þeir fara inn að Ljárskógum þar sem verður myndataka við minningarstein skáldsins en þaðan verður svo farið í kirkjugarðinn í Hjarðarholti. Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í því eru einnig velkomnir.

Dagskráin verður í stuttu máli sú að Hilmar B. Jónsson mun verða með myndasýningu á tjaldi en hann mun sína um það bil 50 ljósmyndir úr safni föður síns og úr eigin safni.

Halldór Þ.Þórðarson mun stjórna Þorrakórnum í söng á lögum og ljóðum Jóns frá Ljárskógum. Þá mun Dallilja Sæmundsdóttir frá Tungu í Hörðudal syngja nokkur lög við undirleik Þorgeirs Ástvaldssonar.

Einnig kemur fram Björn St.Guðmundsson ljóðskáld og mun hann lesa nokkur ljóð eftir Jón.  Að lokum verður fjöldasöngur þar sem allir viðstaddir taka þátt.

Gestir geta keypt kaffi og meðlæti hjá kvenfélaginu Þorgerði Egilsdóttur á meðan dagskránni stendur.

Er það von aðstandenda að sem flestir sjái sér fært að mæta.


Eins og flestir vita dó Jón ungur, en hann var aðeins 31 árs er hann lést þann 7.október 1945. Foreldrar Jóns voru þau Jón Guðmundsson bóndi og ljósmyndari og Anna Hallgrímsdóttir í Ljárskógum. Jón útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1934 en á skólaárum sínum stofnaði hann ásamt þremur vinum sínum MA kvartettinn fræga.

Jón hóf nám í guðfræði en hvarf frá því og gerðist kennari við Gagnfræðaskólann á Ísafirði.  Jón og eiginkona hans, Jónína Kristjánsdóttir eignuðust einn son, Hilmar Braga Jónsson meistarakokk.

Nokkur þekkt ljóð eftir Jón eru meðal annars:

Káta víkurmær (hlusta)

Sestu hérna hjá mér (hlusta)

Kvöldljóð

Húmar að kveldi (hlusta)

Kveðja heimanað (hlusta)

Hér má hlusta á brot úr lögum MA Kvartettsins

jon-fra-ljarskogum