Tilkynnt um reyk í Dvalarheimilinu Fellsenda

0
1262
Björgunartæki í Dalabyggð
Ljósm: Steina Matt
bjorgunartaeki
Björgunartæki í Dalabyggð – Ljósm: Steina Matt

Slökkvilið Dalabyggðar var kallað út laust fyrir klukkan 21:00 í kvöld en þá var tilkynnt um reyk sem lagði undan þakkassa á húsi Dvalarheimilisins að Fellsenda í Miðdölum. Allt tiltækt lið slökkviliðs Dalabyggðar ásamt lögreglu og sjúkraliði fór á staðinn og var komið þangað skömmu síðar. Um 26 heimilismenn eru á Fellsenda og var viðbúnaður því töluverður.

Mikil reykjarlykt tók á móti slökkvilðsmönnum er þeir komu á staðinn en engan reyk var að sjá og töluverðan tíma tók að finna upptök hans samkvæmt heimildarmanni Búðardalur.is. Örlítin reyk lagði upp um þakrennurör á framhlið hússins og að lokum fannst ástæða reyksins en um var að ræða þurrt niðurfall á bak við aðalbygginguna þar sem aðstaða er fyrir reykingamenn dvalarheimilisins.

Ekkert hefur rignt í Dölum um all langa hríð en niðurfallið var yfirfullt af vindlingastubbum sem kviknað hafði í sökum þurrksins. Þar sem niðurfallið við reykingaaðstöðuna er tengt þakrennukerfi hússins fór reykurinn og lyktin eftir þakrennukerfinu og villti því aðeins um fyrir slökkviliðsmönnum í upphafi. Slökkviliðsmenn skoluðu síðan úr niðurfallinu með vatnsfötu og var reykurinn kæfður.

Þess má geta að um er að ræða annað úttkallið hjá slökkviliði Dalabyggðar á skömmum tíma þar sem einungis vatnsfata er notuð við slökkvistarf en hún mun einnig hafa verið notuð þegar kviknaði í sinu á Laxárdalsheiði nú fyrir skömmu.

Umfjöllun á mbl.is

Umfjöllun á Vísi.is.