Kæra lögð fram á hendur Bleiku Dalahrútunum

0
1213

bleikirhrutarmerkiKæra hefur verið lögð fram á hendur Bleiku Dalahrútunum sem eru að búa sig undir evrópumeistaramótið í mýrarbolta um verslunarmannahelgina. Það er eitt af liðinunum í mýrarboltanum sem stendur fyrir þessari kæru en liðið kallar sig Djöfull er ég fullur. Fyrirliði þess er maður að nafni Björgvin Sólberg Björgvinsson en hann og liðið hans kalla sig áhugamannalið á meðan þeir vilja meina að lið Bleiku Dalahrútanna sé atvinnumannalið með Ásmund Einar Daðason alþingismann sem fyrirliða. Þetta kemur fram á fréttavefnum Vestur.is.

Við grípum hér niður í kæruorð Djöfull er ég fullur af fréttavefnum Vestur.is: „Með tilkomu atvinnumannsins, Ásmundar Einars Daðasonar í ár er stórlega vegið að mótinu og virðingu þess, þar sem atvinnumenn í leðjuslag og skítkasti á Alþingi fái þátttökurétt í Mýrarbolta. Því er ljóst að það hallar mjög á óbreytta áhugamenn með tilkomu atvinnumanna í Mýrabolta. Því krefst áhugamannaliðið „Djöfull er ég Fullur“ þess að Ásmundi verði vísað úr keppni og skýrari reglur um atvinnumennsku í Mýrarbolta verði settar. Til vara krefst áhugamannaliðið „Djöfull er ég Fullur“ að Ásmundur muni í það minnsta byrja með hauspoka í fyrsta leik.
Virðing og vinsemd, Djöfull er ég Fullur“.

Búðardalur.is hafði samband við Ásmund Einar Daðason nú í morgun þar sem hann var að pakka ofan í tösku á heimili sínu og búa sig til brottfarar vestur á Ísafjörð.

Liðsmenn Bleiku Hrútanna
Liðsmenn Bleiku Hrútanna

„Þetta sýnir þann skjálfta sem skráning Bleiku Dalahrútana hafði í för með sér. Það er greinilegt að önnur lið hræðast þennan sterka hóp Dalamanna. Við látum þetta ekki trufla undirbúning liðsins sem hefur gengið vel. Stefnan er sett 1. sæti og önnur úrslit eru vonbrigði enda liðið skipað bestu mýraboltamönnum sýslunnar“.

Að lokum bætti Ásmundur því við að liðið væri búið að semja við landsþekktann celeb lögfræðing um að gæta hagsmuna liðsins ef til fleiri kærumála myndi koma.

Fylgst verður vel með frammistöðu okkar liðs í Tungudal um verslunarmannahelgina en fyrir áhugasama er einnig hægt að fylgjast með Bleiku Dalahrútunum á Facebook síðu þeirra en hana má finna hér.