Velkomin jól

0
1257

jolakvedjaKæru Dalamenn hvar sem þið eruð.  Við sem stöndum að Búðardalur.is óskum öllum Dalamönnum gleðilegra jóla – árs og friðar. Megi nýtt ár færa okkur áræðni og bjartsýni til betra lífs, kraft til að koma því til leiðar sem bætir okkar samfélag og græðir.

Jólalagið sem hér fylgir kveðjunni er með öllu ættað úr Dölum nánar tiltekið frá Knarrarhöfn í Hvammssveit. Kvenskörungurinn Steinunn Þorgilsdóttir er þar fædd og uppalin.  Móðir hennar dó ung og Steinunn tók við systkynahópnum, 9 að tölu.

Ein systirin, Helga Þorgilsdóttir er höfundur textans. Hún varð síðar skólafrömuður í Reykjavík, meðal annars skólastjóri Melaskólans um árabil. Einn bróðirinn Þórhallur úr systkynahópnum komst til mennta og varð frumkvöðull í tungumálafræðum og samdi meðal annars fyrstu orðabækur í frönsku eða þýddi og samræmdi íslenskri tungu.

Ólafur Gaukur Þórhallsson hljómlistarmaður og kennari er sonur hans  en Ólafur útsetti lagið að beiðni lagahöfundar. Dóttursonur Steinunnar Þorgilsdóttur í Knarrahöfn (áður en hún fluttist með skarann að Breiðabólsstað til bónda síns Þórðar) sonur Guðbjargar Helgu heitir Þorgeir Ástvaldsson en hann samdi lagið.

Móðurbróðir Þorgeirs ,Halldór Þorgils  Þórðarson kórstjóri og tónlistarfrömuður með meiru í Dalabyggð,  hefur látið syngja þetta í kirkjum Dalanna alloft undanfarin misseri, en hér syngur hin frábæra söngkona Guðrún Gunnarsdóttir lagið, sem við getum með nokkrum sanni sagt að sé hreinræktað jóla“Dala“lag.

Svona til gamans og til þeirra sem hafa áhuga á ættfræði má geta þess að nú um þessar mundir fer poppsveitin Of Monsters And Men mikinn út um víða veröld. Meðlimir sveitarinnar eru allir íslenskir. Forsprakki sveitarinnar, lagahöfundur og söngvari heitir Ragnar Þórhallsson. Langafi hans var frá Knarrarhöfn (áðurnefndur Þórhallur en hann var málfræðingur með meiru sem sótti úr fámennri sveit til suðurlanda  og vann sigra sem frumkvöðull).

Þeir sem áhuga  hafa geta sótt sér nótur lagsins en þær má finna í viðhengi hér neðst á síðunni.

Velkomin jól – Nótur