Jólaball Lions í Búðardal

0
1106

jolaball2012Árlegt jólaball Lions klúbbsins í Búðardal fór fram í Dalabúð í gær. Þangað voru mættir kátir krakkar úr Búðardal, nærsveitum og víðar að. Jólasveinar höfðu boðað komu sína á ballið og mátti sjá spennta krakka dansa í kringum jólatréð ásamt foreldrum, ömmum, öfum eða systkinum.

Allir viðstaddir mættu með eitthvað góðgæti í farteskinu sem sett var á sameiginlegt hlaðborð og svo var boðið upp á kaffi og heitt kakó með rjóma. Síðan undir lokinn dró til tíðinda þegar tveir af þrettán jólasveinabræðrum mættu á ballið og dönsuðu í kringum jólatréð með krökkunum og gáfu þeim síðan góðgæti úr pokum sínum.

Jólasveinarnir mæta á ballið | Ljósm: Búðardalur.isNokkrir eftirtektasamir ballgestir veittu athygli skóbúnaði annars jólasveinsins en hann hafði greinilega týnt stígvelum sínum í öllum hamaganginum í undirbúningi jólanna því hann var berfættur og einungis í inniskóm úr leðurlíki.

Ekki liggja fyrir fréttir af því hvort sveinki hefur þurft að yfirgefa Búðardal í þessum skóbúnaði en líklegt þykir að góðhjartaður Dalamaður hafi útvegað honum ullarsokka og stígvel til að klára vertíðina áður en þeir bræður arka aftur til fjalla.