Jól og áramót á mörgæsaslóðum Suðurskautslandsins

0
1928

Ferðasaga eftir Magnús Ástvaldsson 

Ungur dvaldi ég sumarlangt ár hvert í sveit á Breiðabólsstað á Fellsströnd í Dölum, hjá Þórði afa mínum og Steinunni ömmu minni í móðurætt, og Halldóri móðurbróður mínum og Ólafíu konu hans. Í sveitinni las ég m.a. bækur sem heita Lönd og lýðir. Í þeim var greint frá fjarlægum þjóðum og álfum.

Eftir lestur þeirra má segja að ég hafi smitast af útþrá og þörf til að kynnast framandi þjóðum og líta ókunn lönd. Ferðalög hafa alla tíð heillað mig og gera enn. Hef ég þegar þetta er ritað stigið fæti mínum á land allra heimsálfanna 7. Mér finnst ég öðlast víðsýni með ferðalögum mínum og upplifi ég eitthvað sérstakt og nýtt í hverri ferð. Undirbúningur að langferð til Suðurskautslandsins er afar mikill. Of langt mál væri að telja það upp hér sem þurfti að gera. Til að gera langa sögu stutta hófst ferð mín þann 17.12., 2009.

Flugferðin hófst í Keflavík. Þaðan var flogið til London, Madrid, Buenos Aires í Argentínu og endastöðin var borgin Ushuaia í Terra del Fuego, syðsta hluta Argentínu. Maraþonflug þetta gekk vel að öðru leyti en því að fluginu milli London og Madrid seinkaði um eina 6 tíma sökum ófærðar og ísingar í London. Hefði fluginu seinkað meir, hefði ég setið í súpunni og væntanlega misst af ferðinni.

Ég vaknaði á hádegi þann 19.12., staddur á hóteli í Ushuaia, syðstu borg í heimi, við sól í hánorðri í hádegisstað og í hásumri Suðurhvelsins. Þetta voru undarleg endaskipti á hlutunum. Þarna gat að líta menn við garðaslátt, fíflar uxu í varpa og gargandi kríur voru á flögri.Að lenda á syðsta byggða bóli heimsins minnir um margt á Noreg.

Gamall draumur rætist. Greinarhöfundur stígur fæti sínum á land Suðurskautslandsins.

Himinhá fjöll og skógur upp um allar hlíðar. Ushuaia er 30.000 manna borg, afskaplega falleg og stendur í brattri fjallshlíð. Þarna var áður fanganýlenda Argentínumanna. Sættu fangarnir illri meðferð. Fangabúðirnar eru safn í dag. Ég gaf mér tíma til að líta þangað inn og verður að segjast eins og er að það sætir furðu hvað mannskepnunni dettur í hug þegar kemur að pyntingum og meiðingum á föngnu fólki. Allt yfurbragð fólks í Ushuaia er mjög spænskt. Fjöldi ferðafólks er þarna um hásumarið og gefur að líta mörg skip í höfninni sem ætluð eru til ferða suður á bóginn að Suðurskautslandinu.
Að kvöldi þess 19.12. fékk ég boð um að mæta um borð í farþegaskipið Sergei Vaviloff. Skipið er rússneskt, fyrrum herskip, styrkt til siglinga í ís, 117 m langt, 18 m breitt og ritsir 6 m. Skipið er 6 hæða, knúið 5000 hestafla dísilvél. Heimahöfn þess er Kalíníngrad í Eystrasalti. Í áhöfn eru 53 og það tekur 110 farþega. Áhöfnin er rússnesk en fararstjórar og þjónustulið ástralskt, breskt, bandarískt og kanadískt. Aðbúnaður er allur til fyrirmyndar og fæðið reyndist einstaklega gott. Heillangan tíma tók að koma öllum farþegum fyrir. Þeir voru 110 að tölu af 11 þjóðernum. Margt var af Áströlum, Nýsjálendingum, og Bretum.

Þarna var að auki fólk frá Hollandi, Þýskalandi, Ísrael, Fiji eyjum, Bandaríkjunum, Kanada og Frakklandi svo nokkuð sé nefnt. Ég var eini Íslendingurinn og vakti það forvitni sumra farþeganna, sem væntalega höfðu aldrei séð furðulegan Frónbúa áður.
Að kvöldi þess 19.12 voru landfestar leystar og ferðin til Suðurskautslandsins hófst formlega. Ekki var laust við að mér væri létt. Allur undirbúningur að baki og framundan ,, hafið bláa hafið og ókunn lönd.´´ Tilfiningin sem gagntók mig á þessari stundu var þrungin vellíðan og tilhlökkun.

Kort af leiðinni sem Magnús fórStefnan var sett á Falklandseyjar. Fyrst var siglt rólega milli eyja þarna í Terra del Fuego, sem þýðir Eldland. Sergei Vaviloff fór afar vel í sjó og naut ég þess að vera um borð í svo stóru skipi. Til Falklandseyja var komið að morgni Þorláksmessu. Falklandseyjar tilheyra bresku krúnunni. Eyjarnar fann breski sæfarinn John Davis 1592. Þá bjó þar enginn. Eyjarnar lutu stjórn Spánverja um skeið, síðan Frakka og að lokum Breta frá 1842 allt til dagsins í dag. Argentínumenn hafa löngum gert tilkall til eyjanna.

Í apríl 1982 gerðu þeir innrás á eyjarnar. Við þessu brást Járnfrúin Margaret Tatcher með eftirminnilegum hætti og úr varð Falklandseyjastríðið sem Bretar unnu. Aðal atvinnuvegur á Falklandseyjum er sauðfjárrækt. Um 500.000 fjár er á eyjunum. Nokkuð er um fiskveiðar. Í dag er ferðamennska orðinn mjög stór þáttur í atvinnulífi eyjaskeggja. Á eyjunum búa rúmlega 2.500 manns og þar af búa um 2000 í Stanley, sem er höfuðstaður eyjanna.

Sergei Vaviloff skaut út akkerum í höfninni í Stanley. Farþegar voru ferjaðir í land. Boðið var upp á skoðunarferð um nágrennið. Einnig gafst fólki kostur á að því að skoða sig um í bænum.  Stanley er ótrúlega breskur bær. Mér fannst ég vera kominn út í sveit á Englandi. Ekið er vinstra megin og stýrin á bílunum eru hægra megin. Reyndar voru nær allir á landróverum. Vakti það furðu mína því hastari bílum hef ég ekki setið í á ævinni. Það er eins og tíminn hafi staðið í stað þarna.

Ekki var hraðbanka að finna þarna og ekki var hægt að hringja úr farsímum. Ég fór inn í banka einn og reyndi að fá skipt argentískum pesosum yfir í sterlingspund, sem er gjaldmiðill eyjaskeggja. Það var lífsins ómögulegt og nánast myrti bankamærin mig með augnaráði sínu. Tengsl eyjaskeggja við Argentínumenn eru engin og ríkir kuldi í samskiptum þjóðanna síðan í Falklandseyjastríðinu. Argentínumenn gera enn tilkall til eyjanna og nefna þær Maldivinas eyjar.

Í miðri Stanley sá ég rauðan enskan símklefa og hringdi í bróður minn á Fróni. Hann var þá að versla fyrir jólin í skammdeginu, en ég í hásumri þarna á suðurkollunni. Undarleg upplifun það. Síðdegið þennan sumardag í Stanley var ógleymanlegt. Þarna fundum við ferðafélagar krá og svöluðum þorsta okkar í sumarblíðunni. Heimsóknin til Falklandseyja var afar ánægjuleg. Að upplifa eitthvað breskara og íhaldsamara en breskt hinum megin á hnettinum er mjög sérstakt og minnir mann á áhrif hins gamla breska heimsveldis.

Að kvöldi Þorláksmessu var búið að skreyta Sergei Vaviloff innanstokks og setja upp jólatré og kransa, músastiga og fl. skraut. Stefnan var sett á hið ólgandi haf. Enga fann ég skötulyktina. Það var hins vegar ekki laust við að ég saknaði hennar og Þorláksmessustemmingarinnar á Fróni. Stemmingin sú er svo í rík í manni að hún hverfur aldrei hvar sem maður er staddur á jarðarkringlunni. Nokkuð gerðist þungt í sjóinn og Sergei sigldi inn í bjarta Suðurhvelsnóttina. Skipið fór afar vel í sjó en nokkrir farþeganna urðu samt sjóveikir. Stefnan var sett á einskinsmannslandið Suður Georgíu.

Að kveldi aðfangadags var boðið til matarveislu kl. 18.00 Hún var hin glæsilegasta. Áhöfnin óskaði öllum gleðilegra jóla og saman sungu allir nokkur jólalög, m.a. Heims um ból. Allt var sungið á ensku. Allir óskuðu gleðilegra jóla á sínu tungumáli og var skemmtilegt að heyra þær kveðjur. Ég komst í ágætt jólaskap, en einhvern veginn fannst mér vanta helgina sem er svo inngróin í sálartetur ferðalangs frá ísaköldu landi á norðurhjara. Fólk gerði ser glaðan dag í lok aðfangadagskvölds þarna í opnu suðurhafinu. Jólanóttin var nánast björt.

Á jóladag var sól hátt á lofti. Margir spókuðu sig úti á þilfari. Áhöfnin bauð uppá sýningar á fræðslumyndum meistara Davids Attenborough um Suðurskautslandið. Ég valdi þann kostinn. Að kvöldi jóladags var aftur boðið til hátíðarkvöldverðar. Allir voru í jólaskapi. Margir höfðu hringt heim í gegn um gervihnött og brostu út í eitt. Þetta voru sérstökustu jól sem ég hef upplifað. Suður Georgía er fjallaeyja, 140 km löng og um 40 km breið.

Hæstu fjöllin eru um 3000 m há. Inn á milli fjallatoppanna skín í jökla sem skríða víða fram. Suður Georgía liggur á svipaðri breiddargráðu suðlægrar breiddar og Bretlandseyjar norðlægrar breiddar. Eyjan er fremur hrjóstrug en ægifögur. Nánast ekkert undirlendi er þar. Hún tilheyrir bresku krúnunni og er stjórnað frá Falklandseyjum. Engir búa þarna nema nokkrir staðarhaldarar í bænum Grytviken yfir sumartímann. Suður Georgia á sér merka sögu. Breskir sæfarar fundu hana 1675. Eyjan hefur síðan þá verið viðkomustaður merkra landkönnuða og vísindamanna. Eitt er það sem gerir eyjuna einstaka. Hún var um langt skeið heimkynni sel og hvalveiðimanna. Selveiði var stunduð í stórum stíl á 19. öld. Aðallega voru veiddir loðselir og fílselir. Gekk veiðin svo nærri stofnunum að tegundum þessum var nærri útrýmt af eyjunum. Stofnarnir hafa reyndar rétt úr kútnum og virðast óðum að ná jafnvægi á ný.

Í lok 19. aldar hófu Norðmenn gríðarmiklar hvalveiðar í Suðurhöfum, sem stóðu allt fram á 7. áratug 20. aldar. Þeir veiddu allar tegundir stórhvela. Þegar upp var staðið höfðu þeir ásamt öðrum þjóðum veitt yfir 1.000.000 hvali. Stærsta hvalveiðistöð Norðmanna hét Grytviken. Þar voru dregnir á land og verkaðir 176.000 hvalir á 60 ára tímabili. Hvalastofnar Suðurhafa hafa aldrei náð sér á strik. Veiðar frænda vorra Norðmanna sem og annarra þjóða þarna suðurfrá var skefjalaus rányrkja og eru svartur blettur í sögu hvalveiða. Það sem ef til vill er hvað óhuggulegast er að vita til þess að megnið af hvalaafurðunum fór til iðnaðarframleiðslu.

Að morgni annars jóladags tókum við land á Suður Georgíu í fögru sumarveðri við Andrésarflóa eða Andrews Bay. Þar er stærsta byggð kóngamörgæsa í heiminum og verpa þarna um 150.000 pör. Að lenda í slíkri ofur mauraþúfu ef svo má að orði komast er ólýsanlega stórkostlegt. Hávaðinn er yfirþyrmandi í þessu fuglageri. Mörgæsirnar eru afar vinalegar og óttast mann ekki. Ungar voru komnir úr eggjum og var því nóg að gera fyrir nýbakaða foreldrana að afla fæðu fyrir ungaskarann. Enda var sífelldur straumur fugla til og frá hafi með góðgæti í goggnum. 4 tegungir mörgæsa verpa á Suður Georgíu. Mestur er fjöldinn af kóngamörgæsunum. Í fjörunni lágu fjöldi loð og fílsela og heyfðu þeir sig ekki þó nærri þeim væri komið. Urturnar höfðu nýlega kæpt og snerti ámáttlegt væl kópanna streng í brjósti manns.

Gamalt hvalveiðiskip í Grytviken á Suður GeorgíuSiglt var áfram meðfram ströndinni og land tekið á ýmsum ægifögrum stöðum og í yfirgefnum hvalveiðistöðvum. Að endingu heimsóttum við Grytviken, helstu hvalveiðistöð Norðmanna fyrr á árum. Hvalfangarabær þessi má muna fífil sinn fegurri. Allt er yfirgefið og í niðurníðslu og minnir á gamlan gullgrafarabæ í Villta vestrinu. Þó er þarna safn, vatnsrafstöð, kirkja og pósthús. Ég leit við í kirkjunni, sem er vel við haldið, og sá þar skreytt jólatré. Hún mun vera sú syðsta í heimi. Ég sendi jólakort heim til Íslands og bárust þau viðtakendum rétt fyrir páska. Það má því segja að betra er seint en aldrei að fá jólakveðju.

Í einum firðinum sáust hreindýr. Þau munu Norðmenn hefa flutt með sér og þrífast þau vel. Fuglalíf Suður Georgíu er einstakt. Þar verpa 86 fuglategundir. Merkastir fuglanna eru albatrosarnir. Stærstu tegundir þeirra hafa um 2,5 m vænghaf og geta flogið um 8.000 km leið á hafi úti á rúmri viku. Því miður hefur albatrosum fækkað verulega, einkum stærstu tegundunum. Þar er aðal sökudólgurinn fiskveiðilínur sem liggja út um allan sjó í suðurhöfum. Fuglarnir kafa og éta ætið á önglum fiskilínanna, festast í þeim og kafna. Japanir eru drjúgir við þennan veiðiskap. Einnig eru svonefndar draugaveiðar ógnvaldur. En svo nefnast ólöglegar línuveiðar. Fari fram sem horfir, er hætta á að nokkrar tegundir albatrosanna deyi út og er það mjög sorglegt.

Alls staðar þar sem í land var farið voru farþegar ferjaðir á gúmmítuðrum. Mikils öryggis var gætt og stóð áhöfn og aðstoðarfólk vel að öllum þáttum. Oft gaf á bátinn þegar siglt var hratt á tuðrunum. Mál var nú að sigla til fyrirheitna landsins Antartíku, hins eiginlega Suðurskautslands. Ljóst var að Sergei Vaviloff yrði rúma 2 sólarhringa í hafi og það yfir áramótin. Til hafs var haldið og tók áhöfnin og farþegar að undirbúa áramótin.

Gamlaársdagur rann upp fagur og bjartur. Ég hringdi heim á Frón til systur minnar og bað hana að senda nýárskveðjur mínar til allra ættingja og vina heima. Til kvöldverðar var boðið kl. 18.00. Allt var skreytt á viðeigandi hátt, farþegar fengu hatta, löng nef og ýlur. Að kvöldverði loknum var efnt til herjans mikillar veislu á efsta þilfari. Hátíðarhöldunum var stjórnað þannig að Nýsjálendingarnir sprelluðu og óskuðu öllum gleðilegs nýárs þegar klukkan var 24.00 á miðnætti á Nýja Sjálandi. Þetta gerðu allir þegar að þeirra þjóð kom á tímatalinu. Fyrst gekk nýja árið í garð sem sagt á Nýja Sjálandi og síðast á vesturströnd Bandaríkjanna og Kanada ef miðað er við þann hóp sem þarna var. Ísland var fjórða síðast. Ég söng lag um kartöflur á íslensku og dönsku fyrir liðið. Að lokum var slegið upp balli og dansað fram undir morgun.

Ég vaknaði seint á nýársdagsmorgun við skjannabirtu. Sergei Vaviloff var á hægri siglingu innan um gríðarstóra borgarísjaka. Ég rak upp stór augu. Þetta var aðeins forsmekkurinn að því sem koma skyldi.
Okkur bar að Syðri Hjaltlandseyjum Við fórum í land þarna á eyjunum sem voru nánast á kafi í ís. Eftir hálfsdags siglingu fórum við aftur í land á eyju sem nefnd er Svikaeyja eða Deception Island. Þar er stærsta samfélag mörgæsa sem nefnast hökuólar mörgæsir eða chinstraps penguins. Þarna verpa um 140.000 pör. Hávaðinn var ærandi og gengu mörgæsirnar í skipulagðri halarófu til og frá hafi og byggðinni til að afla ungum sínum ætis. Þær voru allar mjög hefðarlegar og létu mannfólkið ekki raska ró sinni. Stefnan var nú sett á Antrtíkuskagann sem er vestasti hluti meginlands Suðurskautslandsins. Þar sér í klappir og fjöll, en aðeins 2% meginlandsins er íslaus að sumri til. Að sigla inn í þennan ísmassa ef svo má að orði komast, er ógnvænlegt og stórkostleg upplifun í senn. Ísinn skagar víða upp í 1.000 m hæð og tekur á sig ýmsar kynjamyndir. Mér fannst ég vera eins og Gúllíver í Risalandi í þessum massa.

Suðurskautslandið er um 12 milljónir ferkílómetra og er meðalþykkt gaddjökulsins 2.300 m. Þykkastur verður hann 4.770 m. Lægstur hefur hiti mælst mínus 89 gráður á Celcíus. Á meginlandinu eru 40 rannsóknastöðvar margra þjóða og dvelja um 1.000 manns vetrarlangt þarna í myrkrinu en um 4.000 yfir sumarið. Aðal upplifun í ferð sem þessari er að mínu mati, að heimsækja mörgæsabyggðirnar. Alls eru mörgæsir á og við Suðurskautslandið um 2,5 milljónir og af 6 tegundum. Upplifun mín við að sjá þær og byggðir þeirra var mjög sterk og ógleymanleg. Að upplifa óttaleysi og spekt fugla og dýra þarna er hrífandi. Gaman var líka að hitta kríur, ferðagarpa heimsins, þarna gargandi yfir sér. Þær eru væntanlega önnum kafnar við varp hér heima á Fróni þegar þetta er ritað. Allt dýralíf á Suðurskautslandinu og í hafinu í kring um það byggist á ljósátunni í sjónum. Framleiðni hafsins í Suðurhöfum er gríðarleg og er ljósátan þarna allt um kring í milljónum tonna.

Drottning dýraríkisins þarna er keisaramörgæsin sem lifir og verpir eingöngu á meginlandinu og þolir allt að mínus 80 gráðu vetrarkulda. Líf þessara tignarlegur fugla er fagurt sköpunarverk. Við komumst því miður ekki nógu sunnarlega til að heimsækja keisaramörgæsirnar. Til að bæta það upp var sýnd frönsk mynd sem fjallar um líf og lífsbáráttu fuglanna. Myndin er sannkallað meistaraverk. Einnig voru sýndar fræðslumyndir Davids Attenborough sem eru ótrúlega vel gerðar. Þann 3. janúar 2010, kl. 11.00 steig ég á land á Suðurskautslandið. Langþráðu takmarki var náð. Um mig fór ólýsanleg tilfinning. Slegið var upp grillveislu á þilfari skipsins og landtöku fagnað. Farþegar ljómuðu af gleði. Við vorum stödd á 64 gráðum, 53 mínútum suðlægrar breiddar og 62 gráðum og 53 mínútum vestlægrar lengdar.

Skipið Sergei Vaviloff í ísmassanum við SuðurskautslandiðÞessi stund var hápunktur ferðarinnar. Mér var hugsað til þeirrar gæfu sem ég hafði orðið aðnjótandi í þessari ferð. Mér leið í einu orði sagt alveg óskaplega vel og veit að svo hefur verið um alla þátttakendur í ferðinni. Á hinn bóginn hugsaði ég einnig um hve lífríkið þarna er viðkvæmt. Allar breytingar af mannavöldum í formi mengunar, hitnunar jarðar, eyðingu ósonlags og aukinnar ferðamennsku er ógn fyrir allt vistkerfi Suðurskautslandsins og hafsins í kring. Og svo merkilegt sem það nú er þá eru Norður og Suður heimskautssvæðin endastöð mengunar af ýmsu tagi, einkum þungmálmamengunar. Þetta á sér fræðilegar skýringar sem verður ekki rakið hér. Þegar umræðan berst að umhverfis og mengunarmálum dettur mér alltaf í hug orð aldins indjánahöfðingja í Ameríku sem sagði að hvíti maðurinn og menning hans myndi að endingu drukkna í eigin úrgangi. Ég vona sannarlega að svo verði aldrei.

Eftir siglingar á gúmmítuðrunum innan um risavaxna ísjaka og landtökur hér og þar og heimsókn í argentíska rannsóknarstöð, var farið að huga að heimferð. Stefnan var tekin á haf út yfir hið straumharða Drake sund og til Ushuaia. Að þessu sinni lentum við í haugasjó. Sergei stóð af sér alla sjói og til Ushuaia komumst við. Heimferð mín gekk vel en var nokkuð söguleg. Ég gerði sólarhringsstans í Buenos Aires, vitjaði leiðis merkiskonunnar Evu Peron, fékk mér dýrindis nautasteikur og skoðaði þessa fallegu stórborg. Í Madrid varð ég strandaglópur sökum óveðurs í London. Þar hitti ég aðra strandaglópa, m.a. Bólívíumenn sem voru furðu lostnir á þessu ástandi.

Á farsældar Frónið kom ég að kveldi 10.01. 2010, hinn sælasti eftir ferðina á heimsenda. Minningin um þessa stórkostlegu ferð mun ylja sálartetri mínu ævilangt.  Ég nota tækifærið hér og þakka starfsfólki ferðaskrifstofunnar Ultima Thule á Íslandi og Exodus í Bretlandi og öllum um borð í Sergei Vaviloff af heilum hug fyrir ferðina.

Grein þessi birtist í Bændablaðinu fimmtudaginn 8.júlí 2010.

Magnús Ástvaldsson, Hólum Hjaltadal.