Haraldur opnaði fundinn með því að fara vítt og breitt yfir sviðið í stjórnmálum líðandi stundar og fór yfir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram á dögunum.
Fyrirferðarmest var þó umræða um sjúkraflutninga, heilbrigðismál og samgöngur í héraðinu. Þórður Ingólfsson héraðslæknir fór stuttlega yfir staðreyndir varðandi sjúkraflutninga í héraðinu en fyrir liggur krafa frá Velferðarráðuneytinu þess efnis að fækka skuli sjúkrabifreiðum á Vesturlandi um þrjár og þar af eina í Búðardal. Sú breyting taki gildi í janúar 2014 næstkomandi.
Nánar verður fjallað um fyrirhuguð áform Velferðarráðuneytisins um fækkun sjúkrabifreiða í héraðinu innan tíðar hér á vefnum.
Þá tók Eyþór Jón Gíslason sveitarstjórnarmaður til máls og ræddi um málefni Dvalarheimilisins Silfurtúns og stöðu þess í dag og óskaði eftir aðstoð Haraldar við að tryggja fjámagn til dvalarheimilisins.
Einnig tók til máls Sæmundur Kristjánsson yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Búðardal og lýsti hann bágbornu ástandi vega í héraðinu og nauðsyn þess að fá fjármagn til að endurnýja, lagfæra og viðhalda stofnbrautum og sveitavegum í sýslunni.
Sæmundur sagði það í raun ótrúlegt hvað íbúar héraðsins væru með mikið langlundargeð og hversu slæma vegi íbúar í Dölum létu bjóða sér við sín daglegu störf og ferðalög innan héraðs. Sæmundur sagði það algjörlega óviðundandi í hugum Dalamanna að engar vegabætur kæmu til sögunnar í Dalabyggð næstu átta til níu árin eða til ársins 2022 samkvæmt samgönguáætlun.
Mörg önnur mál voru rædd á fundinum og fleiri tóku til máls en ljóst er að nú sem aldrei fyrr þurfa Dalamenn að þjappa sér saman, óháð því hvar í flokki þeir standa – og standa saman vörð um þau almennu mannréttindi sem örugg heilbrigðisþjónusta, löggæsla og viðunandi samgöngur eru ótvírætt.
Dalamenn hafa misst mörg dýrmæt störf á fáum árum og má þar helst nefna sýslumannsembættið ásamt því að embætti lögregunnar í Búðardal var lagt niður við fækkun lögregluembætta á landinu en það heyrir nú undir sýslumanninn í Borgarnesi. Þá má nefna stöðu útibússtjóra Arionbanka, útibússtjóra Mjólkurstöðvarinnar og niðurlagningu sláturhússins í Búðardal svo eitthvað sé nefnt.
Haraldur kvaðst lofa að koma skilaboðum fundarmanna til ráðamanna en í sömu setningu sagðist Haraldur ekki geta lofað góðri niðurstöðu fyrirfram.