Enginn kemst í hópinn nema rétt ættaður

0
1860

Morgunblaðið 9.maí 2005.

Heimilissöngur er orðinn nokkuð fátíður á gervihnattaöld þar sem tímaskortur hrjáir margan manninn. Blessunarlega má þó enn finna svo söngelskt fólk að það gefur sér tíma til slíkrar iðju. Kristín Heiða Kristinsdóttir rann á fagran söng sem barst frá húsi í Breiðagerði og fann þar fyrir skyldmenni sem syngja saman í hverri viku.

Ýmist er það kallað oktett eða tvöfaldur kvartett, þegar átta syngja saman. Þeir feðgar, bræður og frændur sem syngja saman í oktett sem kennir sig við Breiðagerði hafa allir unun af söng og koma saman hvern mánudag til söngæfinga á heimili höfuðpaursins og aldursforsetans í hópnum, Ástvalds Magnússonar, sem er 83 ára og býr í Breiðagerði 8 í Reykjavík. „Þetta byrjaði allt þegar við sungum saman fyrir þremur árum við brúðkaup barnabarns míns og nafna sem nú er orðinn meðlimur í oktettinum. En við fórum ekki að gera þetta af neinni alvöru fyrr en í fyrravetur og enduðum þá á að koma fram á tónleikum á Hvolsvelli með fleiri kórum.“

Skilyrði að vera rétt ættaður

Þeir Ástvaldur og synir hans, Þorgeir, Pétur og Magnús, ásamt frændum sínum og bræðrunum Sigurgeiri og Frosta Jóhannssonum, Halldóri Torfasyni og Ástvaldi yngri, sungu nýlega á söngskemmtun í Hveragerðiskirkju en þeir segja þó engin plön vera hjá hópnum um að verða heimsfrægir. „Við höfum bara svo gaman af þessu og tilvist oktettsins byggist fyrst og fremst á því hvað við erum öll náskyld. Börnin mín fjögur eru öll í hópnum því auk þriggja sona minna, sem syngja, leikur Dóra Steinunn dóttir mín undir hjá okkur og nafni minn sonur hennar er líka í flokknum og hinir þrír eru náfrændur okkar. Það kemst enginn í þennan hóp nema vera rétt ættaður,“ segir Ástvaldur stoltur af hópnum sínum þar sem tveir eru í hverri rödd og auk þess grípur Þorgeir til harmonikkunnar í sumum lögum.Ástvaldur segir að hann og Guðbjörg kona sín hafi alist upp við mikinn söng á æskuheimilum sínum í Dölum. Þau sungu um árabil í ýmsum kórum. Ástvaldur segist fyrst hafa sungið í karlakór 17 ára og nánast óslitið síðan. „Ég var í kvartettinum Leikbræðrum og söng þar annan tenór en með mér voru Torfi bróðir minn fyrsti bassi, mágur minn Friðjón Þórðarson, síðar sýslumaður, annar bassi og Gunnar Einarsson fyrsti tenór.“ Kvartettinn Leikbræður varð til þegar þeir félagar voru á siglingu á Jónsmessunótt út í Flatey á Breiðafirði árið 1945, en þá tóku þeir lagið saman og voru lengi eftir það ómissandi á hverri skemmtun Breiðfirðingafélagsins í Reykjavík og víðar. Þeir héldu fræga tónleika í Gamla bíói árið 1952. „Svo var ég í Karlakór Reykjavíkur í 25 ár og syng enn með „Old boys“, sem er kór eldri og fyrrverandi félaga kórsins.“

Píanóið ofarlega í forgangsröð

sognbraedurvidpianoÁstvaldur segir að tónlistin hafi sem betur fer aldrei skilið við hann. Eftir að hann flutti að heiman varð tilvist píanós á heimili hans og konu hans, Guðbjargar Þórðardóttur, til þess að þar hittust Leikbræður oft til æfinga. „Þegar við Guðbjörg giftum okkur, 1945, átti ég ekki bót fyrir boruna á mér, var bláfátækur sveitapiltur og hafði ekki efni á að kaupa mér hjónarúm. Ég smíðaði það sjálfur og það var fyrsta húsgagnið sem við eignuðumst ásamt píanói sem við keyptum frá Kaupmannahöfn. Guðbjörg hafði lært á orgel og það gekk fyrir að fá hljóðfæri á heimilið. Hún spilaði áður í kirkjunni heima í sveitinni vestur í Dölum. Hún lærði einn vetur hjá Páli Ísólfssyni og spilaði mikið í afmælum og við önnur tækifæri og þá oftast lög úr Íslenska söngvasafninu sem allir kunnu í þá daga og við köllum stundum fjárlögin. Þessi fjárlög eru þau bestu sem hafa komið fram hingað til og við í Breiðagerðisoktettinum syngjum oft úr þessum fjárlögum.“Ástvaldur og Guðbjörg eiga saman fjögur börn sem öll hafa tekið tónlistarbakteríuna og foreldrarnir eru að vonum ánægðir með það. „Börnin okkar spila öll meira og minna eftir eyranu og hafa lært það af mömmu sinni. Dóra og Ástvaldur sonur hennar eru bæði píanókennarar. Börnin okkar hafa öll verið í kórum og bæði sungið og spilað á hljóðfæri.“ Og systkinin rifja upp bernskuárin. „Í öllum afmælum var tekið lagið og mamma spilaði alltaf undir á píanóið. Á jólum komum við líka alltaf saman, okkar fjölskylda og fjölskylda Torfa bróður pabba, og sungum öll saman jólasálma. Hér var stundum mikill hljómur þegar sungið var í fjölskyldusamkvæmum og þá var gjarnan opnað út á svalir. Þá komu nágrannarnir út í garða sína til að hlusta,“ segir Pétur Ástvaldsson.

Og enn hljómar heimilissöngur í Breiðagerðinu. Nú berast píanótónar og söngraddir frá oktettinum góða sem syngur um ástina og vorið.

khk@mbl.is