Þjóðvegur nr. 60 „lífshættulegur“

0
3164

Þjóðvegur nr.60 er lífshættulegur í öllum veðurskilyrðum og er það bara tímaspursmál hvenær þar verður alvarlegt slys. Þetta segja margir einstaklingar búsettir í Dölum og utan Dalanna og einnig þeir sem vinnu sinnar vegna þurfa að aka þjóðveg nr.60 í gegnum Dali en einnig vegfarandi sem taldi sig í lífshættu á veginum við ána Fáskrúð nú fyrir skömmu.

Vestfjarðavegur nr.60 sem liggur í gegnum Dali er fjölfarinn vegur og þótt búið sé að tvöfalda brúna yfir Laxá í Dölum skammt sunnan Búðardals hafa þeir sem aka hvað mest um þennan veg miklar áhyggjur af öryggi sínu. Eins og víðar á landinu hefur umferð um þennan veg margfaldast á örfáum árum vegna fjölgunar ferðamanna og vegna lagningu nýs vegar yfir Arnkötludal eða Þröskulda en segja má að nánast öll umferð sem fer til og frá Vestfjörðum fari um umræddan veg.

Hér fyrir neðan má sjá skjáskot af kortavefsjá Umferðarstofu yfir skráð slys árin 2015 og 2016 á umræddum vegarkafla. Með því að smella á myndina má skoða slysastaðina nánar.

Af vef Umferðarstofu – lifandi kortavefsjá – Smelltu á myndina til að skoða betur

Einn viðmælandi okkar sagðist hafa verið að koma akandi í áttina til Búðardals frá Laugum í Sælingsdal fyrir skömmu og átt skammt eftir að brúnni yfir Fáskrúð þegar hann áttaði sig skyndiega á því að stór vöruflutningabifreið var að koma á móti úr suðurátt. Töluverður bratti er að brúnni beggja megin frá en aflíðandi vinstri beygja niður brekku liggur að brúnni þegar komið er frá Búðardal en blindhæð og brattari brekka liggur að brúnni þegar komið er frá norðri.

Viðmælandinn sagist hafa talið sig eiga nægan tíma í að aka yfir einbreiðu brúna sem liggur yfir Fáskrúð en það hafi ekki verið fyrr en hann var að koma út af brúnni sunnan megin að hann áttaði sig á því í hversu mikilli lífshættu hann hafi verið því vöruflutningabifreiðin hafi komið að brúnni á mikilli ferð og hafi engu munað að árekstur hefði orðið. Mikil hálka og töluverður vindur mun hafa verið á þessum tíma. Viðmælandi okkar sagði að honum hefði aldrei liðið jafn illa undir stýri og á umræddu augnabliki. Þarna hefði getað orðið mjög alvarlegt slys við þessar aðstæður. „Þessi vegur og sérstaklega við einbreiðu brýrnar er lífshættulegur“ sagði umræddur viðmælandi við vefinn.

Ítrekað hefur verið bent á vankanta og hættur á Vestfjarðavegi nr.60 í gegnum Dali og þá aðallega hversu mjór vegurinn er, hversu hátt er út af veginum víða, hversu vegrið byrja of seint og hætta of snemma eða hreinlega vantar svo ekki sé talað um þær hættur sem geta skapast við þær einbreiðu brýr sem þar eru ennþá.

Þeir sem Búðardalur.is hefur rætt við eru sammála um það að breikka þurfi veginn í heild sinni gegnum Dali ásamt því að breikka þurfi þær einbreiðu brýr sem eru þar á leiðinni og má þar helst nefna brýrnar yfir Haukadalsá, Fáskrúð og Glerá.

Búðardalur.is ræddi við umferðaröryggissérfræðinginn Ólaf Guðmundsson hjá FIB og fulltrúa EuroRap í maí árið 2012 eða fyrir tæpum 5 árum síðan. Viðtalið við Ólaf ásamt myndband af þjóðveginum nr.60 í gegnum Dali má finna í spilarnum hér fyrir neðan.

EuroRap vegaöryggi