Frábær talandi krummi í Dölum

0
8961

Allir elska fjölbreytileg og skemmtileg myndbönd af dýrum sem finna má á internetinu í dag en segja má að mynbandið sem Rebecca Cathrine bóndi í Hólum í Hvammssveit í Dölum setti á Facebook síðu sína í gær hafi vakið mikla athygli.

Myndbandið sýnir 2 ára hrafn sem Rebecca tók í sína vörslu frá Þorgrími bónda á Rjómabúinu Erpsstöðum sem margir þekkja. Hrafninn hafði lent í slysi þegar hann var ungi og hefur ekki getað flogið síðan og Þorgrímur og fjölskylda höfðu ekki nægan tíma til að sinna honum og því höfðu þau samband við Rebeccu í Hólum sem er orðin fræg fyrir dýragarðinn sinn og tók hún hrafninn að sér.

Í spjalli við okkur sagði Rebecca að krummi hafi allt frá upphafi fengið mikla ást og umhyggju og verið gefið ferskt kjöt að borða í litlum bitum. Hann hafi í fyrstu bara legið og haft hægt um sig en hægt og rólega hafi hann farið að hressast.

Rebecca segist hafa farið út með honum þegar veður hafi verið gott og setið hjá honum á meðan og segir hún að þau krummi séu bestu vinir en eins og heyra má þegar líður á myndbandið þá fer krummi að kalla „mamma“ til Rebeccu og hún svarar á móti. Síðan virðist vera eins og krummi sé að segja „heyrðu“ eða eitthvað álíka.

Rebecca segir að krummi eigi það til að segja „hættu“ og „allt í lagi“ og sé alveg stórkostlegur fugl. Rebecca segist taka á móti skólakrökkum einu sinni í viku og í liðinni viku hafa hrafninn stolið senunni hjá krökkunum sem hafi hlegið mikið og skemmt sér yfir krumma.

Krummi fer hægt af stað í myndbandinu en þegar liðnar eru 3 mínútur af myndbandinu byrjar krummi að tala.

Sjón og heyrn er sögu ríkari af þessum frábæra talandi krumma í Hólum.

Sjá facebook síðu Rebeccu.