Loka lögreglustöðinni í Búðardal

0
1383

visirLögregluumdæmi Borgarfjarðar og Dala þyrfti að fá tíu til tólf milljóna króna aukafjárveitingu ef halda ætti lögregluvarðstöðinni í Búðardal áfram opinni, að sögn Theodórs Þórðarsonar, yfirlögregluþjóns í Borgarnesi.

Einn lögreglumaður er starfandi á stöðinni og lögreglubíll staðsettur í Búðardal. Stöðinni verður lokað og þessi starfsemni lögð af vegna sparnaðarkröfu sem gerð hefur verið til lögreglunnar í umdæminu.

„Þetta tengist fjárhagsstöðunni hjá embættinu,“ segir Theodór. „Þetta er ekki það sem við viljum gera heldur er okkur þröngur stakkur sniðinn.“
Hann segir að þótt til þessa niðurskurðar komi verði þrír héraðslögreglumenn áfram starfandi í Dölum, einn staðsettur í Saurbæ og tveir í Búðardal.

„Þegar fasti lögreglumaðurinn hefur verið í fríi hafa þessir lögreglumenn farið í hans stað á vettvang. Síðan hefur eftir atvikum komið lögregla úr Borgarnesi hafi þess þurft.“

Theodór segir að löggæslu verði eftir sem áður stýrt með sem hagfelldustum hætti í umdæminu. Fjarskiptamiðstöð lögreglu sendi þann bíl sem næstur sé á vettvang, hvort um sé að ræða Dali eða önnur héruð.- jss

Þessi frétt er tekin af vefsvæði Vísir.is