
„Það hafa veiðst alls 23 Laxar í Fáskrúð það sem af er og veiðimenn eru að sjá laxa um alla á þannig að framhaldið lítur bara nokkuð vel út“ segir Árni í samtali við Búðardalur.is en veiði hófst í Fáskrúð um síðustu helgi.
Árni sagði einnig að þrettán laxar væru komnir á land í Laxá en Laxáin væri orðin mjög vatnslítil og væri fiskurinn farinn að bunka sig í veiðistaðnum Þegjanda, en þar finnur hann skjól í dýpinu.
Dunká hefur gefið 12 laxa það sem af er tímabilinu en veiði hófst einnig þar um síðustu helgi.
Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá Magnús Þórarinsson veiðimann með 92cm hæng sem hann veiddi úr veiðistaðnum Þegjanda í Laxá en Magnús sleppti svo laxinum eftir skemmtilega viðureign.
Búðardalur.is mun svo halda áfram að vera í góðu sambandi við Árna Friðleifsson í sumar og vera með reglulegar veiðifréttir úr Dölum.