Sigurður Jökulsson: Fréttir úr Haukadal og viðtal frá landsmóti

0
2316

siggiavatniVið slóum á þráðinn til Sigurðar Jökulssonar bónda á Vatni í Haukadal í dag og inntum hann eftir fréttum úr Haukadal frá því sem liðið er af sumri. Sigurður var kátur að vanda og sagðist glaður með að loksins hefði komið væta í Dölum en þurrkarnir undanfarið hafa háð grassprettu mjög í Dölum í sumar. Sigurður sagði að eitthvað minna hey hefði komið af túnum núna frá því sem verið hefur undanfarin ár, en þetta myndi reddast eins og alltaf eins og hann orðaði það sjálfur.

Við spurðum Sigurð einnig út í það hvernig hefði gengið í ferðaþjónustunni á Eiríksstöðum í sumar. „Þetta hefur bara gengið mjög vel í sumar, við höfum verið að taka á móti hópum frá því í mars og verðum alveg fram í október að minnsta kosti. Hóparnir eru ekki mjög stórir, svona 16 til 20 manna hópar á litlum rútum. Það má segja að þetta séu nær eingöngu erlendir ferðamenn sem koma hingað, Íslendingar sjást varla hér.

Það er orðið svo dýrt að leigja stórar rútur í dag og því hafa hóparnir minnkað, maður sér varla stóra rútu hér í dag.Það er til dæmis ein ferðaskrifstofa sem skipulagði um það bil 90 ferðir hingað í fyrra og skilaði okkur um 1.200 manns og það verður eitthvað svipað hjá þeim í ár. Heildarfjöldi gesta til okkar allt árið í fyrra voru á bilinu átta til tíu þúsund gestir. Nú um liðna helgi fengum við um 200 manns til okkar þannig að við erum bara kát“ segir Sigurður.

eiriksstadirFjórir til fimm starfsmenn starfa við móttöku gesta og í verslun á Eiríksstöðum yfir sumartímann en yfirleitt eru tveir að störfum í einu.

Opnunartími Eiríksstaða er frá 1.júní til 1.september og er opið frá klukkan 09:00 til 18:00 alla daga. Sjá nánar á www.leif.is

Að lokum getum við ekki stillt okkur um annað en að sýna hér viðtal sem Gísli Einarsson sjónvarpsmaður hjá RÚV tók við Sigurð á Landsmóti hestamanna sem haldið var í Víðidal í lok júní. Viðtalið er tekið laugardagskvöldið 30.júní síðastliðinn eða sama kvöld og forsetakosningarnar stóðu sem hæst.