Taktu strætó í réttirnar

0
1384

straetobdlNæstkomandi sunnudag þann 2.september mun Strætó BS bæta Búðardal inní leiðakerfi sitt ásamt fleiri stöðum á Vesturlandi. Þeir sem hafa hug á því að kíkja vestur í réttir í næsta mánuði en hafa ekki fundið sér far geta nú tekið gleði sína og tekið strætó í réttirnar ef þeir hafa ekki annað far í að sækja.

Ekki á farþegum að þurfa að leiðast á leiðinni því þeir sem eiga fartölvur geta tengst þráðlausu interneti sem er í vögnunum. Svo þegar rafhlaðan er við það að klárast af fartölvunni þá er bara hægt að stinga í samband í vagninum og hlaða.

Búðardalur.is mælir þó frekar með því að farþegar njóti þess að sitja í vagninum og horfa á hið fallega og margbreytilega landslag sem fyrir augu ber á leið frá Reykjavík til Búðardals.

Samkvæmt leiðakerfi strætó mun strætó leggja af stað úr Mjódd alla virka daga mánudaga til föstudaga kl.10:00 og er komið í Búðardal kl.12:44. Sunnudaga er ekið úr Mjódd klukkan 13:00 og komið í Búðardal kl.15:44. Ekki er ekið á laugardögum samkvæmt því sem fram kemur hjá Strætó  BS. Ekið er til Reykhóla þriðjudaga og fimmtudaga og til Hólmavíkur mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga.

Samkvæmt gjaldskrá Strætó er staðgreiðsluverð fyrir hvert gjaldsvæði 350 kr. Níu gjaldsvæði eru á milli Reykjavíkur og Búðardals og því kostar ferðin fyrir einn fullorðin 3.150 kr.

Hér fyrir neðan má finna leiðakerfið fyrir Vesturland og Norðurland á pdf formi. Einnig má fá nánari upplýsingar á vef Strætó.