Hreyfing og jákvæðni „Mitt besta veganesti“

0
2095
gudridurElsti núlifandi Íslendingurinn er úr Dalabyggð og heitir Guðríður Guðbrandsdóttir.Hún er borin og barnfædd að Spágilsstöðum í Laxárdal og bjó um áratuga skeið í Búðardal í því húsi sem heitir Aldan. Foreldrar Guðríðar voru Guðbrandur Jónsson bóndi og kona hans Sigríður Margrét Sigurbjörnsdóttir.
Börn þeirra urðu 11 að tölu og er Guðríður 6.barn í röð systkina sinna. Eiginmaður Guðríðar  var Þorsteinn Jóhannsson verslunarmaður. Þau fluttust frá Búðardal 1952 suður til höfuðborgarinnar. Þorsteinn lést árið 1985. Kjördóttir þeirra hjóna og lífsförunauta var Gyða Þorsteinsdóttir sem lést árið 2000. Fósturbörnin urðu tvö, Sigurður Markússon sem nú er látinn og Halldóra Kristjánsdóttir.

Guðríður gekk aldrei í skóla,til þess voru tækifærin engin fyrir fátæka sveitastúlku í leit að lífsins hamingju en hún naut sinna nánustu eins og ömmu sinnar og nöfnu sem fleytti henn fram á veginn öðrum fremur. Hún naut sinna gáfna til hins ýtrasta og hannyrðir urðu hennar helsta áhugamál í lífinu. Að skapa eitthvað og búa til er gott vegarnesti á langrI ævi.
Guðríður er fædd 23.maí 1906 og er því orðin 106 ára og fimm mánuðum betur. Hún man tímana tvenna og þrenna er víst óhætt að segja. Þótt sjónin hafi daprast síðustu ár og heyrnin ekki sem best er hún ótrúlega ern og vel á sig komin, með öðrum orðum ber ellina vel. Það sem rak okkur til fundar við Guðríði í vistlegri smáíbúð við Furugerði í Reykjavík er í senn fregnir af góðri líðan hennar og svo umræðan um baráttuna við ellina, bætt heilsufar líkama og sálar o.s.frv. Allt um kring eru þessi mál á döfinni í nútímanum.
Hún er kvik á fæti,brosmild og minnug á marga hluti, sannarlega lifandi. Spurð um langlífið svarar hún: „Hreyfingin gefur manni þrótt og hefur mikið að segja og svo hef ég alltaf leitað uppi það jákvæða í lífinu. Það er svo mikið af hinu svarta,ýtum því til hliðar þegar við getum. Þegar ég þarf að stytta mér stundir fer ég með þann kveðskap sem ég lærði í bernsku og æsku í leik og starfi.Það er svo gott“.
Pabbi hennar Guðbrandur var hennar leiðbeinandi í ljóðlistinni og kveðskapnum og amma hennar, sem hún heitir eftir, lagði henni mikið til í uppeldi á bernskuárunum og fram í æsku. Hver maður hafði sitt hlutverk í uppeldinu á Spágilsstöðum, rétt eins og á öðrum fjölmennum sveitabýlum  snemma á síðustu öld. En auðvitað er það erfiðast við ellina ,ef þú heldur sæmilegri heilsu, að sjá á eftir þínum nánustu,söknuður og tómleiki má þó ekki ná yfirhöndinni. Guðríður segist vona að þetta fari nú að styttast hjá henni og hún fari nú brátt að fá hvíldina eins og hún orðar það sjálf og segist hún ekki kvíða því sem bíði hennar.
Viðtalið sem fer hér á eftir er vitnisburður um frábæra lífsýn öldungs sem er enn í fullu fjöri á 107.aldursári, einstaklings sem hefur tileinkað sér hreyfanleika og jákvæðni á langri ævi, einstaklings sem hlaut þá guðsgjöf að halda minninu tæru og hreinu í meira en öld og nota það. Hún heldur minninu því við og ræktar, sjálfri sér til gleði og yndisauka. Minningarnar gefa svo mikið, þær eru verðmætar.
Unnið er að því að skanna inn ljósmyndir úr einkasafni Guðríðar sem hún af einskærri góðvild afhenti til menningarmiðju Dalanna og verða þær ljósmyndir aðgengilegar innan tíðar og verður það auglýst sérstaklega.

Athugið! Ef spilun myndbandsins fer að hökta, prófið þá að setja spilun myndarinnar á bið og bíða í amk 1 mínútu og hefja svo spilun aftur.