Rafmagnsleysið: Ljósmyndir frá viðgerðum

0
1076

rafmagn2012-5Eins og fram hefur komið unnu starfsmenn á vegum Rarik mikið þrekvirki við að koma rafmagni aftur á til bæja í Saurbæ, Skarðsströnd og Fellsströnd fyrir áramót. Sumstaðar er um bráðabirgðaviðgerð að ræða en að minnsta kosti 13 rafmagnsstaurar voru brotnir í Saurbæ og einhverjir á Skarðsströnd.

Meðfylgjandi ljósmyndir sem Búðardalur.is fékk sendar frá Steinþóri Loga Arnarssyni frá Stórholti í Saurbæ sýna vinnuflokk Rarik að störfum aðfaranótt gamlársdags þar sem hann var við vinnu við Neðri-Brekku í Saurbæ en þar brotnuðu að minnsta kosti 9 staurar.  Auk þess reyndust fjórir staurar vera brotnir fyrir ofan Efri-Brunná en þar var rafmagn lagt niður á jörð að sögn Steinþórs. 

Það sannast enn á ný að Dalamenn eiga frábæra starfsmenn að sem starfa hjá Rarik í Búðardal sem eru tilbúnir að fara á hvaða tíma sólarhrings sem er í hvaða veðrum sem er til þess að koma rafmagni aftur á til fólks hafi rafmagn farið af. Þess ber þó að geta að starfsmenn Rarik í Búðardal fengu einnig aðstoð frá Suðurlandi við þessa umræddu viðgerð.