Dalirnir og söngvakeppnin

0
1294

dalirnirogsongvakeppnin2013Eins og Dalamenn og sjálfsagt margir aðrir vita áttu Dalamenn þrjá fulltrúa í söngvakeppni Sjónvarpsins í ár og tveir þeirra taka nú þátt í úrslitakvöldinu sem fram fer í tónlistarhúsinu Hörpu í kvöld.

Haraldur Reynisson eða Halli Reynis stígur þar á stokk með lagið sitt Vinátta en Halli er einn af tengdasonum Dalanna. Með honum í bakröddum ásamt Elínrósu Benediktsdóttur er Dallilja Sæmundsdóttir frá Tungu í Hörðudal.

Sjö lög taka þátt í keppninni í kvöld og verður spennandi að sjá hvaða lag verður fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Svíþjóð í vor.

Það er ærin ástæða til að hvetja Dalamenn sem og aðra landsmenn sem telja lagið Vináttu vera þess verðugt að vera fulltrúi Íslands í Svíþjóð í vor að  leggja kosninganúmer lagsins á minnið en það er 900 9906 en Halli, Dallilja og Elínrós eru næst síðust á svið í kvöld.

Dallilja Sæmundsdóttir er dóttir þeirra Sæmundar Gunnarssonar bónda í Tungu í Hörðudal og Hrafnhildar Hallgrímsdóttur. Dallilja hefur sungið mikið að undanförnu með tveimur vinkonum sínum en þær kalla sig Stúkurnar og halda þær úti síðu á Youtube þar sem skoða má nokkur lög sem þær hafa sungið.

Erna Hrönn Ólafsdóttir komst því miður ekki áfram í keppninni í ár en hún söng lagið Augnablik eftir Svein Rúnar Sigurðsson. Tenging Ernu Hrannar við Dalina er sú að hún er dóttir Hönnu Maídísar sem er fædd á Sámstöðum í Laxárdal og afi hennar er Sigurður Jónsson sem líka var fæddur á Sámsstöðum. Erna bjó lengi á Hrafnagili í Eyjafirði og er hún því oft talin frá Akureyri. En miðað við þetta getum við Dalamenn stoltir eignað okkur Ernu Hrönn.

Þetta er í annað skiptið sem Halli Reynis tekur þátt í söngvakeppni Sjónvarpsins er hann tók einnig þátt árið 2011 með laginu Ef ég hefði vængi.

{audio}vinatta_hallireynis.mp3{/audio}
Vinátta – Halli Reynis

Skoða vef söngvakeppninnar hjá RÚV.