Vel heppnað þorrablót Laxdæla

0
1288

Screen Shot 2016-01-07 at 20.48.30Um 230 manns voru samankomin í Dalabúð á laugardagskvöldið en þar fór fram hið árlega þorrablót Laxdælinga. Það var Baldur Þórir Gíslason formaður ungmennafélagsins UMF Ólafur Pái sem fyrstur tók til máls en á eftir honum kom Sæmundur Jóhannsson formaður þorrablótsnefndar 2013 í pontu og setti hann blótið.

Veislustjórar tóku þá við en veislustjórar voru Þorgeir Ástvaldsson og Sigurður Sigurbjörnsson. Mikil vinna hafði verið lögð í undirbúning skemmtiatriða hjá þorrablótsnefndinni og tók við þétt dagskrá sem innihélt leikþætti, söngatriði og grínmyndbönd þar sem góðlátlegt grín var gert að persónum og atvikum úr dalnum frá liðnu ári.

Screen Shot 2016-01-07 at 20.49.00Skemmtiatriðum lauk um klukkan 23:30 en þá voru nokkrir útvaldir heimamenn kallaðir uppá svið og héldu menn að verið væri að velja Laxdæling ársins eins og tilkynnt var en síðar kom í ljós að fólkið sem kallað hafði verið upp á svið var næsta þorrablótsnefnd og formaður hennar var tilnefndur Baldur Þórir Gíslason.

 

Screen Shot 2016-01-07 at 20.49.10Í framhaldi af þessu tók við dansleikur með hinni stórgóðu norðlensku hjómsveit Hvanndalsbræðrum. Óútskýrt óhapp varð í einni af pásum hljómsveitarinnar en þegar þeir komu á svið eftir eina slíka lá bassi hljómsveitarinnar á gólfinu og hafði greinilega dottið á gólfið og skemmst lítilsháttar. Svo vel vildi til að tónlistarskólinn var opinn en þar voru nokkrir bassar klárir og fékk bassaleikarinn lánaðann bassa hjá skólanum til að klára dansleikinn.

Gamanvísur frá Búðardalur.is sem sungnar voru á þorrablótinu. 

Ásmundur er drengur hér úr Dölum.
Texti sunginn við erlent alþýðulag. 

Ásmundur er drengur hér úr Dölum
hann datt svo inná þing og haldinn kvölum.
Hann ákvað svo úr flokknum græna að ganga,
(lesið), þegar hann var búinn að fá sig fullsaddann á Steingrími og sviknum loforðum hans og brotum hans á stefnu flokksins,
(sungið),þar nennti hann ekki að hanga.

Og Ási brattur gekk nú yfir ganginn
og gældi við þá hugsun hvergi banginn.
Að banka á dyr hjá Framsókn og þá spyrja,
(lesið), hvort hann mætti ekki vera memm, og svo sagði hann við Sigmund að hann vildi ganga í flokkinn af heilum hug og vinna að stefnumálum flokksins og bjóða sig fram í 2.sætið í suðvestur kjördæmi í kosningunum í vor og spurði svo,
(sungið), hvenær má ég byrja?

Nú ekki myndi það nú verða verra
við myndum líta Ása sem ráðherra.
Hann landbúnaðarmálin myndi skoða,
Og rífa svoleiðis upp landbúnaðinn hérna á þessu landi
(lesið),og gera það loks lífvænlegt fyrir fólk að vera bændur og stunda þessa grein af einhverju viti.Koma í veg fyrir þetta ESB kjaftæði,
rífa sláturhúsið hérna í gang aftur svo það þurfi ekki að keyra féð yfir hálft landið,
(sungið), úr nógu er að moða.

Nú síðla hausts hann Ásmundur sig gifti
í kyrrþey svo að enga veislu þyrfti.
Þau flugu síðan út í ævintýrið,
(lesið), og heyrst hefur að um leið og þau hafi komið heim úr brúðkaupsferðinni hafi Ási ætlað að fara á fjórhjólinu upp í fjall að leita að eftirlegukindum,en þess í stað hafi Sunna skipað honum að fara á jarðýtuna og klára lóðina kringum húsið.Þannig að í þessum samböndum líkt og mörgum öðrum,
(sungið),þá sést hver er við stýrið.

Í sjónvarpsþætti Ási sést á kvöldin
hjá Ingva Hrafni sem þar fer með völdin.
Hann Svartar tungur þáttinn kýs að kalla,
(lesið), og þangað fær hann til sín vinnufélaga af Alþingi og spjallar um öll þau deilumál sem eru í gangi í þinginu og svo er varla hægt að kveikja á útvarpinu öðruvísi en hann sé að tala þar um ESB og refaveiðar, en eitt er víst og það er að hann Ási,
(sungið), mikið er að bralla.

Í oktober hann okkur bauð til veislu
og ekki var þar laust við mikla neyslu.
Þar grænan mjöð hann bruggað hafði óður,
(lesið),og svo fóru fréttir að berast af því daginn eftir veisluna að menn og konur pissuðu grænu og sumir eru víst enn að glíma við það vandamál. En aðrir voru heppnari og létu það duga að drekka bara bjórinn Lamba sem,
(sungið), jaaaaaarmandi var góóóóður.

Höfundur: Sigurður Sigurbjörnsson

Ævintýrið í Laxárdal 2012
Írskt þjóðlag 

Er Samkaup kom þá fannst mönnum það svaka mikill fengur,
en ætlir þú að versla í matinn lítið fæst þar lengur.
Og Díana hún ræður þar og stjórnar öllu saman,
og kennir Tobba um eitt og allt, og honum finnst ei gaman.

Á bensínskorti í Búðardal það bar á liðnu ári,
og bagalegur reyndist mörgum þessi árans fjári.
Við bakstur líka Díana og Samkaup hafa sannað,
að kakan verði bara fín, þó vanti eitt og annað.

Í skólamálum margt þarf hér að skoða líka og laga,
og leikskólinn hann veldur fólki líka miklum baga.
Sterkir vindar blása þar og hamast hvasst á hjarni,
nú skulu menn sko sektirnar, borga af hverju barni.

Viðlag: Það var sól og mikið gaman,
sveitarstjórinn týndur var og krakkar léku saman.
Halldór hékk í myndavél og köttur út í mýri,
þú finnur hvorki borg né bæ, með betra ævintýri.

Á Hótel Bjargi þar er stuð og hörkumikil vinna
og heilmörgu þar Jón Stóri og Kristján þurfa að sinna.
Er villi skreppur út í frí hann fljótt nú verður þvalur,
því á fésbókinni auglýst er “Weekend in Búðardalur” .

Steini Kiddi hann var líka hér í miklum vanda
því vildi ekki bölvaður lambhrúturinn standa?
Sláturtíð hjá Steina í sumar honum varð að vonum,
en skotið hljóp úr byssunni, í löppina á honum.

Viðlag: Það var sól og mikið gaman
sveitarstjórinn týndur var og krakkar léku saman.
Halldór hékk í myndavél og köttur út í mýri,
þú finnur hvorki borg né bæ, með betra ævintýri.

Í Skessuhorni í viðtali hann Bjarni Hermanns lenti,
en mjög svo mikið bagaleg þar uppákoma henti.
Héldu menn að Bjarni hefði lent þar inná barinn,
því Bjarni sagði um konuna, að hún væri afturfarin.

Eyþór Jóni töffara nú ekkert vex í augum,
og ekki er að sjá að hann sé neitt að fara á taugum.
Ekki er verra fyrir fólk að eiga menn að slíka,
en hann vill verða formaður, kvenfélagsins líka.

Sigurbjörn af gömlum vana um sláturhúsið gengur,
þó kvikur sé þá er hann ekki unglamb mikið lengur.
Og sveitarstjórnin KS þarf að hugga bæði og sætta,
og Sigurbjörn er algjörlega hættur við að hætta.

Viðlag: Það var sól og sunnan vindur
Halldór hékk í myndavél og Bjarni taldi kindur
Sveitarstjórinn týndur var og köttur úti í mýri,
þú finnur hvorki borg né bæ, með betra ævintýri.

Búðardalur.is með vefmyndavél fína,
allir glöddust mjög og sumir þar sig vildu sína
Gamanið þó kárna fór er fólkið að þvi keppti,
og Skagfirðingur Dalamaður ársins titil hreppti.

Viðlag: Það var sól og sunnan vindur
Halldór hékk í myndavél og Bjarni taldi kindur.
Sveitarstjórinn týndur var og köttur úti í mýri,
þú finnur hvorki borg né bæ, með betra ævintýri.

Höfundur:
Sigurður Sigurbjörnsson,
Úlfar Jónsson (vinur og bragfræðingur að austan)