Össur væntanlegur í sauðburð í Dalina í vor.

0
1011

ossurogasiÍ umræðum á Alþingi Íslendinga í gær spunnust upp umræður um sauðburð og forgangsröðun, á milli þeirra Ásmundar Einars Daðasonar þingmanns okkar Dalamanna og Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra.

Össur hafði á orði að hann skildi ekki þær kvartanir þingmanna að þeir kæmust ekki heim í kvöldmat á sama tíma og verið væri að vinna að því að ljúka öllum þeim málum sem fyrir liggja og nauðsynlegt væri að klára fyrir þinglok.

Ekki mun það hafa verið Ásmundur sem kvartaði yfir því að komast ekki heim í kvöldmat en í kjölfar þessara ummæla Össurar steig Ásmundur í ræðustól og bauð hann Össuri að koma í sauðburð í Dalina í vor sem Össur svo þáði með þökkum, en þessi skemmtilegu orðaskipti má sjá á myndskeiði frá Alþingi hér fyrir neðan.

Svo er bara spurningin, kemur Össur í vor til að hjálpa Ásmundi við sauðburðinn?

Eitt er víst, Búðardalur.is verður á vaktinni og mun fylgjast með ferðum Össurar.