Slökkviliðs og sjúkraflutningamenn á æfingu

0
1050

ford450slokkvibifreidViðbragðsaðilar hjá Slökkviliði Dalabyggðar og sjúkrafluttningamenn héldu eina af sínum reglubundnu æfingum í dag. Æfingin fór fram skammt norðan við Búðardal og var æfingin sett upp eins og um væri að ræða umferðarslys þar sem tvær bifreiðar hefðu lent í árekstri og hafnað utan vegar.

Að sögn Jóhannesar H. Haukssonar slökkviliðsstjóra hjá Slökkviliði Dalabyggðar var æfingin sett þannig upp eins og um væri að ræða þrjá aðila í tveimur bifreiðum. Einn farþegi átti að hafa kastast út úr annari bifreiðinni en hinir tveir voru fastir í bifreiðunum og þurfti að klippa þá út úr ökutækjunum og flytja yfir í sjúkrabifreið.

Að sögn Jóhannesar er svona æfing haldin að minnsta kosti einu sinni á ári og tókst æfingin í dag vel í alla staði og er góður liður í því að slípa menn saman og skerpa á verklagi fyrir komandi sumar. Um þrettán slökkviliðsmenn, þrír sjúkrafluttningamenn og einn læknir tóku þátt í æfingunni í dag.  Þrír liðsmenn Björgunarsveitarinnar Óskar í Dalabyggð léku hina slösuðu á æfingunni.

Eins og oft hefur komið fram áður hefur umferð í gegnum Dalabyggð stóraukist á undanförnum árum og því nauðsynlegt nú sem aldrei fyrr að hafa öflugt slökkvilið, sjúkrafluttningamenn og lögreglu til taks ef á þarf að halda. Að sögn Jóhannesar fékk Slökkvilið Dalabyggðar 12 útköll á síðasta ári og voru 5 þeirra vegna umferðarslysa.

Ljósmyndin hér að ofan er af Ford 450 slökkvibifreið Slökkviliðs Dalabyggðar og má segja að um sé að ræða eina af öflugustu slökkvibifreiðum landsins. Bifreiðin er með tvöföldu húsi og getur borið fjóra slökkviliðsmenn, 1+3 reykkafara eða 2+2 reykkafara. Mesta leyfða heildarþyngd bílsins er 7.257 kg og vélin er 6,0L 325hp V8 Turbo Intercooler Dísel vél (243 kW), 772 Nm við 2.000 snúninga, sem þýðir 22 kg á hestafl fyrir fullhlaðinn bíl. Bíllinn er því með mjög öfluga vél miðað við þyngd.

Vatnstankur bifreiðarinnar er 1.000 lítra og eru tveir froðutankar í bílnum (A og B froða). Bifreiðin er búin sérstöku One-Seven froðukerfi sem er mjög hentugt þar sem erfitt er að ná í slökkvivatn. 1.000 lítrar af vatni ásamt slökkvifroðunni búa því til 8.000 lítra af slökkvifroðu sem bifreiðin kemur með á vettvang. Þá er meðal annars í bifreiðinni klippi og glennubúnaður til að ná fólki út úr bílum vegna umferðarslysa og við ýmis björgunarverkefni.

Steinunn Matthíasdóttir fylgdist með æfingunni í dag og hér fyrir neðan má finna ljósmyndir sem hún tók af æfingunni.