Kúnum hleypt út í vorið á Erpsstöðum

0
1175

erpsstadir2013Sunnudaginn 9.júní 2013 buðu bændurnir Þorgrímur og Helga á rjómabúinu Erpsstöðum í Miðdölum fólki að mæta og horfa á þegar kúnum var hleypt út í vorið eftir langa inniveru.

Þeir gestir sem mættir voru að Erpsstöðum skemmtu sér svo við að horfa á þegar kýrnar slettu úr klaufunum og nutu þess að hlaupa út í vorið. – Sjón er sögu ríkari en horfa má á myndband af þessum viðburði hér fyrir neðan.

Ábúendur á Erpsstöðum eru í dag hjónin Þorgrímur Einar Guðbjartsson, frá Kvennahóli á Fellsströnd í Dalasýslu og Helga Elínborg Guðmundsdóttir, frá Kvennabrekku í Miðdölum Dalasýslu. Börn þeirra eru fimm; Guðbjört Lóa, Gunnlaug Birta, Guðmundur Kári, Einar Björn og Hólmfríður Tania.

Búskap er í dag þannig háttað á Erpsstöðum að rekið er kúabú, með um 60 mjólkurkúm auk geldneyta, alls um 150 gripir. Sauðfjárbúskapur lagðist af árið 2000, en haustið 2008 voru fengnar að nýju nokkrar kindur á búið. Hestarnir eru sjö á öllum aldri. Eru flestir tamdir og notaðir af börnunum og unglingunum til leiks á vorin og sumrin. Þá eru á bænum 3 kettir, ein kanína, 3 naggrísir og einn hundur

Haustið 2006 tóku Helga og Þorgrímur þá ákvörðun að byggja upp búið á Erpsstöðum. Eins og margir vita þá er nútímabúskapur orðin mun auðveldari en áður fyrr ekki síst vegna framfara í mjaltatækni og heyverkun. Til þess að geta tekið þátt í þeirri framþróunn, þá var fátt annað hægt að gera en að hefja byggingaframkvæmdir.

Vorið 2007 hófust síðan framkvæmdir og var þeim að mestu lokið haustið 2008 og kýrnar fluttu í hið nýja fjós. Nýja fjósið er ætlað um 80 kúm, þar af um 60 mjólkandi, auk aðstöðu fyrir kálfa meðan þeir fá mjólk. Að auki er í nýja fjósinu um 200fm aðstaða, ætluð fyrir heimavinnslu afurða.

Það er einmitt heimavinnslan sem hafði aðdráttarafl þegar ákveðið var að fara af stað í þessa vegferð. Þorgrímur er mjólkurfræðingur að mennt og hefur unnið í MS Búðardal við framleiðslu á ostum og sýrðum vörum

Rjómabúið varð til vorið 2009, þegar ábúendur á Erpsstöðum hófu ísframleiðslu. Fyrsta sumarið var einungis seldur ís og bara beint frá býli. Það sumar komu um 5000 gestir bæði til að skoða fjósið og neyta veiganna.

Veturinn 2009/10 varð síðan Rjómabúið Erpsstaðir ehf til sem sér félag og hefur það frá þeim tíma aukið stöðugt við framleisðulínu sína.

Í dag er framleitt gamaldags skyr, tvær tegundir af ostum, margar tegundir af ísum og skyrkonfekt, sem var þróað og hannað í samvinnu við námskeið á vegum listaháskóla íslands, sem kallaðist Stefnumót hönnuða og bænda

Þau tvö ár sem Rjómabúið Erpssataðir hefur verið starfrækt hefur gestum fjölgað stöðugt. Árið 2011 voru þeir 15.000 , bæði innlendir sem erlendir.  – erpsstadir.is