Tímamót í sundkennslu í Dalabyggð

0
1345

Screen Shot 2016-01-18 at 22.19.52Nokkuð merkileg tímamót urðu í sögu sundkennslu í Dölum í dag þegar sundkennsla hófst í endurbættri sundlaug við Dalabúð í Búðardal.

Endurbætur hafa staðið yfir við gömlu sundlaugina við Dalabúð í sumar en það er sveitarfélagið Dalabyggð ásamt tveim einstaklingum úr sveitarfélaginu sem fjármögnuðu verkefnið.

Með tilkomu sundlaugarinnar þarf ekki lengur að aka með börnin inn að Laugum í Sælingsdal en þangað hefur nemendum verið ekið í áratugi til sundkennslu.

Gaman væri að fá viðbrögð hér við þessari umfjöllun frá þeim aðilum sem muna eftir því hvenær sundlaugin við Dalabúð sem var, opnaði fyrst og hvenær hún lagðist af.

Til gamans má benda á ljósmyndir sem Búðardalur.is fékk sendar frá Hugrúnu O.Hjartardóttur á Fjósum en þær eru teknar við sundlaugina í Dalabúð en ártal eða tilefni er ekki vitað. Þeir sem hugsanlega búa yfir upplýsingum um myndirnar eða eiga fleiri ljósmyndir sem tengjast sundlauginni er bent á að hafa samband í netfangið budardalur@budardalur.is eða í símanúmer sem finna má á forsíðunni.

Á myndskeiðinu sem fylgir hér fyrir neðan má sjá fyrsta krakkahópinn sem fékk að stinga sér til sunds í nýju lauginni í dag en það var Einar Jón Geirsson íþróttakennari við Auðarskóla sem stjórnaði þessum kátu krökkum í dag og mun einnig gera í vetur.