Einungis ein sjúkrabifreið eftir áramót

0
949

einsjukrabifreidEins og fjallað var um hér á Búðardalur.is fyrr á þessu ári er gerð krafa um að fækka sjúkrabifreiðum í Dalabyggð úr tveimur í eina um næstkomandi áramót. Við tókum Karl Inga Karlsson yfirmann sjúkraflutninga tali í ágúst vegna þessa en viðtalið við Karl Inga má finna hér.

Á fréttavef Morgunblaðsins mbl.is er einnig fjallað um þetta mál í dag, en fréttina má sjá hér.

Skemmst er að minnast baráttu Dalamanna og nærsveitunga þegar til stóð að leggja af einu stöðu lögreglumanns í héraðinu en þá fóru í gang hávær mótmæli og fóru af stað undirskriftalistar í kjölfarið sem síðar voru afhentir innanríkisráðherra. Hvort sú barátta hafi einhverju skilað skal ósagt látið hér, en í það minnsta er starfandi lögreglumaður í Búðardal flesta daga enn sem komið er.

Fyrir liggur niðurskurðarkrafa stjórnvalda til stjórnenda sjúkraflutninga á Vesturlandi þess efnis að fækka skuli sjúkrabifreiðum á Vesturlandi um þrjár talsins. Þessi fækkun skuli eiga sé stað í Búðardal, Hvammstanga og Ólafsvík.

Búðardalur er með eitt víðfeðmasta heilsugæslusvæði landsins. Svæðið nær frá Bröttubrekku í suðri að Skálmanesmúla í vestri. Frá Búðardal í Skálmarfjörð eru um 170 kílómetrar. Sjúkraflutningur frá suðurfjörðum Vestfjarða getur tekið um 10 klukkustundir. Með tilkomu Vestfjarðavegar yfir Þröskulda hefur öll umferð sem á leið á Strandir og Vestfirði færst í gegnum Dali og því er um margföldun á umferð á því svæði að ræða.

Svæði sjúkraflutninga í DalabyggðSem dæmi má nefna að sjúkrabifreið úr Borgarnesi á um 80 kílómetra leið að fara til aðstoðar í Búðardal. Sjúkrabifreið frá Hvammstanga á einnig um 80 kílómetra að fara til aðstoðar um Laxárdalsheiði, sé hún fær. Ekki er hægt að treysta á aðstoð sjúkrabifreiðar frá Hólmavík að vetrarlagi þar sem færð um Þröskulda hefur verið mjög erfið dögum saman að vetrarlagi.

Í svarbréfi sem Gísli Björnsson yfirmaður sjúkraflutnniga á Vesturlandi hefur sent til Velferðarráðuneytisins vegna þessarar niðurskurðarkröfu kemur fram að ekki sé eingöngu hægt að horfa til fjölda útkalla við ákvörðun fjölda sjúkrabifreiða. Skoða verði vegalengdir sem hvert svæði þjóni ásamt því að skoða þurfi hversu lengi sjúkrabifreiðar eru uppteknar í hverjum sjúkraflutningi.

Til samanburðar segir Gísli í bréfinu að einn sjúkraflutningur geti tekið allt að 10 klukkustundir en á sama tíma og sjúkrabifreiðar á þessu svæði séu í einu útkalli geti sjúkrabifreið á höfuðborgarsvæðinu farið í 20 til 30 sjúkraflutninga.

Sjúkrabifreiðarnar sem eru til taks í Búðardal í dag eru af gerðinni Ford Econoline árgerð 2005 ekin 180.000 og Volkswagen Transporter árgerð 2005 ekin 160.000. Samkvæmt samantekt Gísla kemur fram að fjarvistir sjúkrabifreiða í Búðardal vegna lengri sjúkraflutninga árið 2009 hafi verið um 500 klst eða sem nemur um 21 sólarhring.

Í bréfi Gísla kemur einnig fram að ekki verði séð að neinn fjárhagslegur ávinningur verði af þessari breytingu þar sem Ford Econoline bifreiðina megi nota í mörg ár í viðbót með því að nota hana eingöngu við erfiðar aðstæður eins og oft skapast á útkallssvæði Búðardals. Volkswagen bifreiðina þurfi ekki að endurnýja strax við óbreyttar aðstæður. Verði það hins vegar ófrávíkjanleg krafa að fækka niður í eina sjúkrabifreið þurfi hins vegar strax að endurnýja yfir í nýja og öfluga sjúkrabifreið með  tilheyrandi kostnaði.

umraedasjukrabifreidar
Umræða af gamla vef