Bæjarhátíðin „Heim í Búðardal“ 2014

0
1054

baejarhatidibudardalBæjarhátíðin „Heim í Búðardal“ fer fram helgina 11.-13.júlí næstkomandi.

Hátíðin í ár verður með svipuðu sniði og árið 2012 og byggist upp á þátttöku heimamanna og annarra velunnara. Fjölmargt verður í boði fyrir unga sem aldna alla helgina.

Meðal annars bjóða nokkrir heimamenn fólki að kíkja við í kjötsúpu á föstudagskvöldinu en þá verður einnig hátíðarstemning hjá MS í Búðardal í tilefni af 50 ára starfsafmæli stöðvarinnar.

Þá verða fjölskyldutónleikar við Leifsbúð á föstudagskvöldið.

Aðstandendur hátíðarinnar hafa ákveðið að prófa þá nýbreytni að bjóða til morgunverðar á laugardagsmorgninum í Dalabúð en morgunverðurinn er í boði Samkaupa, Brauðvals á Akranesi, Rjómabúsins á Erpsstöðum, Vífilfells, Sölufélags Garðyrkjumanna og Mjólkursamsölunnar á meðan birgðir endast. Vonandi verður þessi sameiginlegi morgunverður góð byrjun á góðri helgi.

Fornbíla og dráttarvélasýning verður í miðbænum ásamt grillvagni meistarafélags kjötiðnaðarmanna. Hið landsfræga kassabílarallý KM-Þjónustunnar fer fram á laugardeginum en um kvöldið er kvöldvaka í Dalabúð en deginum lýkur síðan með dansleik þar sem Hlynur Ben og Gleðisprengjan sjá um fjörið.

Þá eru bæjarbúar hvattir til að taka höndum saman og týna rusl og snyrta bæinn eins vel og verða má. Einnig eru bæjarbúar hvattir til að skreyta bæinn hátt og lágt og mynda þannig skemmtilega stemmningu alla helgina. Litaþema verður á milli gatna líkt og áður og verður skiptingin við lækinn. Blátt og rautt þema verður norðan megin og grænt og appelsínugult sunnan megin.

Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér fyrir neðan og einnig hér til hægri á síðunni.

Skipuleggjendur hátíðarinnar í ár eru: Jón Egill Jóhannsson Skerðingsstöðum, Henný Árnadóttir Búðardal og Rakel Magnea Hansdóttir Hlíð.

Myndband frá hátíðinni árið 2012:

Dagskrá