Syngdu mig heim

0
1080

syngdumigheimSöngskemmtun á Hvammstanga í tilefni aldarafmælis Jóns frá Ljárskógum

Á þessu ári eru 100 ár liðin frá fæðingu Jóns frá Ljárskógum, skáldsins og söngvarans þjóðkunna. Í tilefni þess verður haldin vegleg söngskemmtun í Félagsheimilinu Hvammstanga föstudaginn 29. ágúst kl. 20:30.

Að tónleikunum stendur einvala lið tónlistarmanna sem flytur mörg þekktustu söngljóð skáldsins, þar á meðal nokkur lög sem M.A.-kvartettinn gerði fræg og heyrast nú í upprunalegri útsetningu þeirra í fyrsta skipti í 70 ár. Atriðin eru af ýmsum toga,  einsöngur, dúettar, kvartett og kór en meðal flytjenda má nefna nýstofnaðan söngkvartett í anda M.A.-kvartettsins.
Þetta er í þriðja sinn sem þessi söngdagskrá er flutt en hún var fyrst flutt á hátíðartónleikum í Vídalínskirkju í Garðabæ 26. mars síðastliðinn. Þar ríkti einstök stemmning og var troðfullt út úr dyrum og er áætlað að tæplega þúsund manns hafi sótt skemtunina. Morgunblaðið flutti fregnir af tónleikunum nokkru síðar og sagði þá bæði „glæsilega“ og „vel heppnaða í alla staði“. Í blaði Morgunblaðsins segir jafnframt: „Var þétt setið á hverjum bekk og komust mun færri að en vildu.“

Jón frá Ljárskógum í Dölum fæddist 28. mars 1914 og var einn vinsælasti tónlistarmaður landsins á sinni tíð. Strax um tvítugt söng hann sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar ásamt félögum sínum í M.A.-kvartettinum sem með réttu mætti kalla fyrstu dægurstjörnur íslenskrar tónlistarsögu, en þeir störfuðu  á árunum 1932-1942 og nutu einstakrar hylli landsmanna. Auk þess að syngja með kvartettinum gerði Jón marga söngtexta sem urðu geysivinsælir, en meðal þekktra söngljóða hans má nefna Sestu hérna hjá mér, Húmar að kveldi, Ó, Súsanna og Blærinn í laufi. Jón lést aðeins 31 árs úr berklum en þrátt fyrir stutta ævi liggja eftir hann tvær frumortar ljóðabækur og veglegt söntextahefti. Þá hefur söngur hans og M.A.-kvartettsins hljómaðí útvarpinu síðustu 70 árin við feikna vinsældir.

Flytjendur á tónleikunum eru: Unnur Birna Björnsdóttir, Una Dóra Þorbjörnsdóttir, Unnur Helga Möller, Guðmundur Davíðsson, Magnús Pétursson, Reynir Bergmann Pálsson og Sigurður Helgi Oddsson.

Söngskemmtunin hefst sem fyrr segir kl. 20:30 í Félagsheimilinu Hvammstanga. Aðgangseyrir er kr. 2000 og verður engin posi á staðnum.

Allir eru hjartanlega velkomnir.