Mikil umferð um Laxárdalsheiði og Heydal

0
1501

hradbrautin-hordudal-630x378Talsverð umferð hefur verið um Laxárdalsheiði og suður Heydal frá því snemma í kvöld eftir að Holtavörðuheiði og Bröttubrekku var lokað vegna óveðurs og ófærðar.

Fram kemur á vef mbl.is í kvöld að margir ökumenn hafi leitað skjóls í Staðarskála, Reykjaskóla og félagsheimilinu Ásbyrgi í Laugabakka til þess að bíða þess að veðrinu sloti og vegurinn opnist að nýju.

vegagerdarvefurMargir ökumenn ákváðu þó að nýta sér leiðina yfir Laxárdalsheiði og yfir Heydal til Reykjavíkur líkt og fyrr segir.

Er þetta ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist og sýnir hversu mikilvæg leiðin yfir  Laxárdalsheiði er í aðstæðum eins og sköpuðust í dag.

Á Facebook síðu Unnar Ástu Hilmarsdóttur bónda í Blönduhlíð í Hörðudal birtist ljósmynd í kvöld sem hún tók frá bænum en það sýnir hversu mikil umferðin var um tíma og mátti sjá bíl við bíl á köflum, en segja má að íbúar á þessum slóðum séu ekki vanir slíkri umferð. Myndina má sjá hér að ofan.

vegagerdarvefur3Vegurinn yfir Laxárdalsheiði er malarvegur, en eins og fyrr segir mjög mikilvæg varaleið komi til lokunar Holtavörðuheiðar. Sumir hafa þó verið þeirrar skoðunar að loka eigi leiðinni yfir Holtavörðuheiði yfir veturinn, og nota Laxárdalsheiði og Bröttubrekku eða Heydal sem vetrarleið, enda mjög sjaldan sem Laxárdalsheiði lokast sökum ófærðar.

Þá hafa allnokkrir í gegnum tíðina verið talsmenn þess að bora eigi göng gegnum Bröttubrekku og gera þannig enn greiðfærari leið vestur á firði og norður í land.

Í því tilliti má minnast hér á grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 6.apríl 2001 sem ber titilinn, Yfir eða gegnum Bröttubrekku, og er eftir þá feðga Ástvald Magnússon og Þorgeir Ástvaldsson.

Þar rita þeir feðgar einmitt um þann möguleika að gera leiðina yfir Laxárdalsheiði að vetrarleið þar sem mjög sjaldan kemur fyrir að heiðin lokist að vetrarlagi og gera göng í gegnum Bröttubrekku.

Greinina má lesa hér.

Nú klukkan 22:00 í kvöld höfðu 324 ökutæki farið um Laxárdalsheiði.