Búðardalur.is fær nýtt útlit – vilt þú vera með?

0
1759

Frá því vefurinn Búðardalur.is fór í loftið þann 29.maí árið 2012 hefur sama útlit og vefumhverfi verið notað og það því haldist óbreitt þau tæpu fimm ár sem vefurinn hefur verið starfræktur.

Undanfarin misseri hafa staðið yfir endurbætur á vefnum en um er að ræða algjöra endurnýjun í nýju umhverfi. Nýji vefurinn er meðal annars með notendavænt viðmót fyrir spjaldtölvur og snjalltækið hverskonar.

Enn er unnið að því að yfirfæra gögn af eldri vef yfir á nýja vefsvæðið og þar á meðal ljósmyndir en vonast er til að það klárist sem fyrst. Tenglar sem vísa í ákveðnar fréttir eða annað efni af gamla vefnum kanna að hafa breyst en allar gamlar fréttir er að finna á nýja vefnum.

Það eru Helgi Þór Guðmundsson kerfisfræðingur og Sigurður Sigurbjörnsson annar eigandi Búðardalur.is sem hafa unnið að gerð nýja vefsins. Vefurinn er hýstur hjá hýsingafyrirtækinu Snjallhýsingu – snjallhysing.is.

Það er ætlun okkar með nýjum vef að gefa í og gera enn betur í fréttaöflun, viðtölum og söfnun menningarefnis er tengist Dölum og Dalamönnum fyrr og nú.

Sigurður Sigurbjörnsson, Þorgeir Ástvaldsson og Helgi Þór Guðmundsson fyrir utan Leifsbúð þann 28.maí 2012 þegar Búðardalur.is var kynntur Dalamönnum og formlega opnaður.

Það eru sem fyrr Þorgeri Ástvaldsson og Sigurður Sigurbjörnsson sem standa á bakvið vefinn. Vefurinn hefur verið rekinn frá upphafi í sjálfboðavinnu en þó hafa nokkrir styrkir fengist vegna reksturs hans.

Aðstandendur Búðardalur.is leita eftir einstaklingum sem hafa áhuga á því að skrifa fréttir á vefinn eða setja inn efni á vefinn. Við óskum því eftir því að þessari frétt sé deilt sem víðast um netheima í þeirri von að einhver áhugasamur aðili hafi samband við okkur og vilji aðstoða okkur, og auðvitað eru allar hugmyndir vel þegnar. Áhugasamir geta haft samband í tölvupóstfangið budardalur@budardalur.is

Nú nýverið festi Búðardalur.is kaup á dróna sem mun koma sér vel við gerð efnis og myndatöku í Dölum. Þá býðst Dalamönnum að kaupa loftmyndir, til dæmis af sveitabæ sínum sínum eða húsi og eins og gefur að skilja er það viðkomandi að stjórna því hvar myndin er tekin og frá hvaða sjónarhorni.