Jörfagleði 2017

0
1913

Síðast liðna helgi fór fram Jörfagleði í Dalabyggð. Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg. Raunar byrjaði hátíðin miðvikudaginn 19.apríl með opnu húsi í leikskólanum og um kvöldið var hún formlega sett. Við setninguna komu fram harmonikkufélagið Nikkólína og Þorrakórinn.
Sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20.apríl, stóð UDN fyrir hlaupi frá Eiríksstöðum að Jörfa í Haukadal. Leiðin er um 4 km að lengd og var aldursbil hlaupara mjög breitt, þeir yngstu fengu þó flestir far í kerrum.

Hér sést hópurinn hlaupa af stað frá Eiríksstöðum og stefna að Jörfa. Ljósm. Svanhvít Lilja.

Síðar um daginn var opið hús á Sauðafelli þar sem ábúendur buðu gestum að skoða nýuppgert hús, húsið var byggt fyrir 120 árum eða árið 1897. Um kvöldið fór síðan Spurningakeppni dalamanna fram sem fjallað var um hér. Einar Jón stjórnaði henni af sinni alkunnu snilld og virtust allir hafa gaman af.

Hollvina félag Dalabyggðar fundaði og ein-söng-leikurinn, Hvað er bak við ystu sjónarrönd, fór fram í Dalabúð á föstudagskvöldinu og á Dalakoti spilaði Dj Maggi fyrir dansþyrsta gesti.

Siggi á Vatni segir sögur á Eiríksstöðum. Ljósm. Svanhvít Lilja.

Laugardaginn 22. apríl var mikið um að vera, dagurinn byrjaði á Íþróttamóti Glaðs á reiðvellinum og innanhúsknattspyrnumóti UDN á Laugum. Klukkan 13.00 tók Siggi á Vatni á móti gestum á Eiríksstöðum og sagði frábærlega frá raunum ábúenda og fleira fólks sem uppi var á tímum Eiríks Rauða. Fullt var út að dyrum en áætlað er að milli 50 og 60 manns hafi lagt leið sína inn að Eiríksstöðum. Á sama tíma opnuðu íbúar á Jörfa dyr sínar, buðu upp á vöfflur og annað lostæti og á neðri hæðinni mátti svo skoða verk Guðrúnar Tryggvadóttur.

Bjarnheiður og Guðrún tóku vel á móti gestum á Jörfa og sýndu glæsilega listmuni. Ljósm. Svanhvít Lilja.

Í Saurbænum var haldið Davíðsmót í bridge, mótið er kennt við Davíð Stefánsson (1933-2015) bónda á Saurhóli sem var mikill bridge spilari.

Síðar um daginn söng Breiðfirðingakórinn í Dalabúð í tilefni 20 ára afmæli kórsins, söng kórinn eitt lag frá hverju starfsári og frumflutti lag sem samið var í tilefni afmælisins. Vel var mætt og gestir nutu vel.

Breiðfirðingakórinn syngur fyrir gesti í Dalabúð. Ljósm. Svanhvít Lilja.

Unglingum á aldrinum 11-18 ára var svo boðið á ball þar sem Dj Dagur og Helgi Fannar sáu um að halda uppi stuði frá kl 20.00-22.00. Laugardagurinn endaði svo á balli þar sem hljómsveitin Meginstreymi lék fyrir dansi. Meðlimir hljómsveitarinnar eru héðan og þaðan af Vesturlandi og er einn dalamaður í hópnum. Spiluð voru lög úr öllum áttum og flestir gátu því dansað við eitthvað við sitt hæfi.

Síðasti dagur hátíðarinnar, sunnudagur 23. apríl, hófst með opnu húsi á Sauðafelli. Glaðar raddir, kór eldri borgara, tók nokkur lög við Silfurtún og um kvöldið skemmtu pörupiltarnir Dóri Maack, Nonni Bö og Hermann Gunnarsson gestum með sínum vangaveltum um lífið og tilveruna.

Yfir alla hátíðina var svo sýning að nafni, Hver er?, en hún innihélt myndir af Dalamönnum í æsku og bauðst fólki tækifæri á að giska á hverjir voru á myndunum. Verðlaun voru svo fyrir þann sem flesta þekkti. Ásdís Kr. Melsteð tók saman myndir og hélt utan um sýninguna. Hægt er að sjá svör á Facebook viðburðnum, Jörfagleði í Dölum.

Gestir reyna að finna út hvaða Dalamenn eru á ljósmyndunum. Ljósm. Svanhvít Lilja.