Setti í þann stóra í Glerá

0
3396
Ljósm: Ásdís Kr.Melsted
Ljósm: Ásdís Kr.Melsted

Nú á dögunum var athafnamaðurinn Jóhannes Haukur Hauksson sem einnig er mjólkurfræðingur, oddviti og slökkviliðsstjóri okkar Dalamanna við veiðar í Glerá í Hvammssveit.

Jóhannes setti heldur betur í þann stóra en Glerá færði honum stórlax sem mældist 95cm og reiknast sem 16 pund.

Í samtali við Jóhannes sagðist hann hafa farið upp í foss og þar hafi hann komið auga á fiskinn. Hann hafi þó ekki strax áttað sig á hversu stór fiskurinn hafi verið. Jóhannes segist hafa beitt maðki fyrir laxinn og hafi hann kokgleypt öngulinn. Baráttan við laxinn tók um 55 mínútur að sögn Jóhannesar.

Jóhannes segir að sérkennilegast við þennan fisk sé að hann líti út fyrir að hafa legið lengi í ánni en það geti ekki verið þar sem hann hafi verið lúsugur, sem segi mönnum það að hann hafi ekki verið búinn að vera lengur en tvo daga í ánni.

Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá Jóhannes Hauk með stórlaxinn, sem hann segir þó ekki vera þann fyrsta á sínum veiðiferli.

Við óskum Jóhannesi til hamingjum með laxinn um leið og við óskum eftir veiðisögum og ljósmyndum úr veiði í Dölum í netfangið budardalur@budardalur.is