Haustfagnaður 2017

0
2040

Hinn árlegi Haustfagnaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu verður haldinn dagana 20. og 21. október. Eins og svo oft áður hefst fagnaðurinn með hrútasýningu í norðurhluta sýslunnar á hádegi á föstudag og lýkur með dansleik í Dalabúð á laugardagskvöld. Í ár mun hljómsveitin Sóldögg stíga á stokk og skemmta dansþyrstum gestum.

Dagskrá Haustfagnaðar þetta árið er svo hljóðandi:

Föstudagur 20. október.
12.00 Lambhrútasýning og opin fjárhús að Rauðbarðarholti, Hvammsveit.
19.30 Sviðaveisla, hagyrðingakvöld og dansleikur í íþróttahúsinu að Laugum í Sælingsdal.

Laugardagur 21. október.
10.00 Lambhrútasýning og opin fjárhús að Hlíð í Hörðudal.
13.00 Reiðhöllin opnar.
14.00 Íslandsmeistaramót í rúningi.
14.30 Sýning á ullarvinnslu.
18.30 Grillveisla og verðlaunaafhending í Dalabúð
23.59 Dansleikur með Sóldögg.

Á lambhrútasýningum keppa best dæmdu lambhrútar hvors hluta sýslunnar fyrir sig. Á sama tíma er keppt um fallegustu gimbralömbin. Úrslit eru svo kynnt í Dalabúð á laugardagskvöldi.
Sviðaveislan hefur jafnan verið vel sótt og þótt hin besta skemmtun. Veislustjóri í ár verður Karl Ágúst Úlfsson og hagyrðingar verða þeir Ágúst Marinó Ágústsson, Dagbjartur Dagbjartsson, Pétur Pétursson og Ragnar Ingi Aðalsteinsson. Vandræðaskáld verða með skemmtiatriði þegar hagyrðingar hafa lokið sér af og mun hljómsveitin BLAND sjá um að loka kvöldinu með dansleik.
Í reiðhöllinni verða nokkur fyrirtæki að kynna þjónustu sína og vörur. Sirkus Íslands verður á svæðinu og skemmtir fólki.
Íslandsmeistaramótið í rúningi hefur verið ágætlega sótt og alltaf vakið lukku gesta, í fyrra var Hafliði Sævarsson krýndur meistari og er spennandi að sjá hvort hann verji titilinn.
Á laugardagskvöld verða svo bestu lambhrútar sýslunnar verðlaunaðir sem og bestu ær árgangs 2012 í Dalabúð á sama tíma geta gestir gætt sér á dýrindis grillmat.
Eins og áður sagði slær hljómsveitin Sóldögg svo botninn í fagnaðinn með dansleik í Dalabúð.

Nánari upplýsingar um viðburði má nálgast á Facebook-síðu Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu, hér.

Sýnt verður frá hátíðinni á snapchat aðgangi síðunnar, þar fáum við að sjá bak við tjöldin sem og frá öllum helstu atburðum og úrslitum helgarinnar.

Endilega bætið „dalamenn“ við vinalistann ykkar á snapchat.