Kosningakæra frá fyrrverandi sveitarstjórn Dalabyggðar

0
2014

Fráfarandi sveitarstjórn Dalabyggðar hefur kært niðurstöðu sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru þann 26.maí síðastliðinn. Fyrsti fundur nýkjörinnar sveitarstjórnar Dalabyggðar fór fram í gær þar sem kosið var um oddvita og í nefndir og ráð sveitarfélagsins. Nýkjörin oddviti er Eyjólfur Ingvi Bjarnason bóndi í Ásgarði en hann hlaut 229 atkvæði í kosningunum og í leynilegri kosningu á fundi sveitarstjórnar í gær um kosningu oddvita hlaut hann 5 atkvæði en Ragnheiður Pálsdóttir 1 atkvæði og einn sveitarstjórnarfulltrúi sat hjá.

Í stuttu máli virðist tilefni kosningakæru fyrrverandi sveitarstjórnar vera undirskriftarlisti sem Eyjólfur Ingvi Bjarnason nýkjörin oddviti óskaði eftir að afhenda þáverandi sveitarstjórn þann 24.maí en þann dag fór fram síðasti fundur sitjandi sveitarstjórnar. Sveinn Pálsson sveitarstjóri samþykkti að taka á móti Eyjólfi og nokkrum öðrum íbúum Dalabyggðar og tók sveitarstjórn á móti Eyjólfi og fleiri íbúum sem afhentu Jóhannesi Hauki Haukssyni fyrrverandi oddvita umræddan undirskriftalista.

Alls 213 einstaklingar skrifuðu undir umræddan undirskriftalista sem hljóðar svo:

„Í samræmi við 64.gr. samþykkta um stjórn sveitarfélagsins Dalabyggðaróskum við undirrituð eftir því að almenn atkvæðagreiðsla fari fram um mál nr. 1609021 – sala eigna – Laugar og Sælingsdalstunga sbr. tillögu Arnarlóns ehf. frá 13.maí sl. um lausn á málinu. Við erum á móti því að Dalabyggð veiti seljendalán.“

Nú setur fyrrverandi sveitarstjórn ásamt Sveini Pálssyni sveitarstjóra út á framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar og telur hana vera langt frá því verklagi sem fyrirskrifað er í reglugerð um undirskriftasafnanir af þessu tagi.

Þá telur fráfarandi sveitarstjórn ásamt Sveini Pálssyni sveitarstjóra að þeir sem stóðu að undirskriftalistanum hafi sýnt á sama tíma og undirskriftum var safnað annan lista þar sem búið hafið verið að raða saman „réttum“ frambjóðendum en þar hafi nöfn sitjandi sveitarstjórnarmanna ekki verið með en fjórir af sjö fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum gáfu kost á sér aftur til setu í sveitarstjórn en engin af þeim náði endurkjöri. Þá rita sex af sjö nýjum sveitarstjórnarmönnum undir umræddan lista.

Sveinn Pálsson sendi fyrirspurn til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þann 7. júní sl. varðandi íbúakosningu, undirskriftalista og sveitarstjórnarkosningarnar og var þess óskað að ráðuneytið rannsakaði aðdraganda og niðurstöðu kosninganna í Dalabyggð.

Ráðuneytið mun hafa svarað samdægurs og mun skoða framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar en lítur á síðari hluta erindis sveitarstjórnar sem kosningakæru og vísar því áfram til Dómsmálaráðuneytisins. Dómsmálaráðuneytið vísar erindinu áfram til Sýslumannsins á Vesturlandi til þóknanlegrar meðferðar með bréfi dagsettu 11.júní sl. Fimm af sjö fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum Dalabyggðar samþykktu þetta.

Nánar má lesa um málið í fundargerð fyrsta fundar nýrrar sveitarstjórnar Dalabyggðar sem fram fór í gær þann 14.júní. SJÁ FUNDARGERÐ