Viðurkenningar veittar á bæjarhátíð

0
2012
Ljósm:Mannlíf í Dölum / Rebecca Cathrine Kaad Ostenfeld

Á liðinni bæjarhátíð í Dalabyggð voru veittar hinar ýmsu viðurkenningar af því tilefni. Skúli Hreinn Guðbjörnsson formaður byggðaráðs Dalabyggðar veitti viðurkenningar á bæjarhátíðinni. Meðal annars voru veittar umhverfisviðurkenningar og viðurkenningar í ljósmyndasamkeppni.

Umhverfisviðurkenningar
Umhverfisviðurkenningar eru veittar í þremur flokkum, en þær eru:
Snyrtilegasta bændabýlið
Snyrtilegasta fyrirtækið
Snyrtilegasti garðurinn í Búðardal

Dómnefnd var skipuð Fjólu Mikaelsdóttur, Sigurði Bjarna Gilbertssyni og Svanhvíti Lilju Viðarsdóttur og unnu þau verkefnið mjög samviskusamlega og heimsóttu nokkra staði sem helst komust til álita.

Ljósm: Jóhanna Lind Brynjólfsdóttir – Afhending umhverfisverðlauna

Snyrtilegasta bændabýlið / Vígholtsstaðir:
Viðurkenninguna hlutu Sigurbjörn Sigurðsson og Melkorka Benediktsdóttir á Vígholtsstöðum fyrir snyrtilegasta bændabýlið. Þar horfði dómnefndin til þess að öllum byggingum er einkar vel við haldið, bæjarmyndin er mjög snyrtileg í heild og garðurinn glæsilegur og hefði vel komið til álita sem snyrtilegasti garðurinn líka.

Snyrtilegasta fyrirtækið / Rjómabúið Erpsstaðir:
Helga Elínborg Guðmundsdóttir og Þorgrímur Einar Guðbjartsson fyrir hönd Rjómabúsins á Erpsstöðum, fyrir snyrtilegasta fyrirtækið. Rjómabúið á Erpsstöðum hefur verið í mikilli endurnýjun á gestaaðstöðu bæði úti við og inni í gestastofunni og er aðkoman að fyrirtækinu og ásýndin öll mjög glæsileg.

Snyrtilegasti garðurinn / Lækjarhvammur 2:
Guðrún Ingvarsdóttir og Jón Benediktsson fyrir snyrtilegasta garðinn að Lækjarhvammi 2. Dómnefndin bankaði upp á hjá 4 garðeigendum sem stóðu upp úr nokkuð jafnir og vill lýsa yfir mikilli ánægju með hversu erfitt valið var, því það þýðir að mikill metnaður er lagður í garðrækt og fallega ásýnd. Garðurinn í Lækjarhvammi 2 er mjög ræktarlegur og fallegur, mikill metnaður í bæði skrautplöntum og nytjaræktun og falleg heild.

Tillaga kom fram um að þeir sem núna hljóta viðurkenningar taki að sér dómnefndarstörf næst, enda allt greinilega smekkfólk.

Ljósmyndasamkeppnin:
Veittar voru viðurkenningar fyrir þrjá flokka mynda
Dýralíf í Dölum
Mannlíf í Dölum
Landslag í Dölum

Dýralíf í Dölum / Ágústa Rut Haraldsdóttir:
Í flokknum dýralíf í Dalabyggð er það kraftmikil mynd af hestum að hlaupa yfir veg sem Ágústa Rut Haraldsdóttir tók.

Mannlíf í Dölum / Rebecca Cathrine Kaad Ostenfeld:
Í flokknum mannlíf í Dalabyggð er friðsæl mynd af dreng að eiga við fax á hesti, en Rebecca Cathrine Kaad Ostenfeld tók hana.

Landslag í Dölum / Jón Trausti Markússon:
Í flokknum landslag í Dölum er það kyrrlát fjörumynd úr Búðardal eftir Jón Trausta Markússon sem fær viðurkenningu.

Einnig voru valdar 9 myndir til að setja upp og eru þær til sýnis utandyra á girðingunni við leikskólann. Þær fá að vera þar það sem eftir lifir sumars, okkur til ánægju og yndisauka.